Fjórða jafnteflið í röð
Keflavík og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli þegar liðin mættust í 8. umferð Pepsi-deildarinnar en leikið var á Nettó-vellinum í Keflavík. Þetta var fjórði deildarleikur Keflavík í röð sem lýkur með jafntefli en að þessu sinni voru það okkar menn sem jöfnuðu leikinn. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Sindri Snær Magnússon kom Keflavík yfir í upphafi þess seinni. Jeppe Hansen jafnaði fyrir gestina og Ólafur Karl Finsen kom Stjörnunni svo yfir. Skömmu síðar var Sindri Snær aftur á ferðinni og fleiri urðu mörkin ekki.
Eftir leikinn er Keflavík í 3.-5. sæti deildarinnar með 13 stig stig eftir átta leiki.
Næsti leikur er heimaleikur gegn Hamri í Borgunarbikarnum en hann verður á Nettó-vellinum fimmtudaginn 19. júní kl. 20:00.
-
Þetta var 19. leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í efstu deild. Þetta var sjötta jafnteflið, Keflavík hefur unnið sjö leiki og Stjarnan sex. Markatalan er 28-26 fyrir Keflavík.
-
Sindri Snær Magnússon gerði fyrstu mörk sín í sumar og fyrstu mörkin fyrir Keflavík í efstu deild. Sindri var reyndar að skora í fyrsta sinn í efstu deild en hann hafði áður leikið þar fimm leiki með Breiðablik og hefur svo bætt við átta leikjum í sumar.
-
Ólafur Karl Finsen skoraði í þriðja leiknum í röð gegn Keflavík en hann skoraði í báðum leikjum liðanna í fyrra.
- Þetta var fjórða jafntefli Keflavíkur í röð í deildinni en það er met. Liðið hafði þrisvar áður gert þrjú jafntefli í röð í efstu deild, árin 1972, 1988 og 1994. Árið 1994 gerði liðið þrjú 1-1 jafntefli í röð eins og í ár, gegn KR, Stjörnunni og ÍBV.
Myndir: Jón Örvar Arason