Fjörugt jafntefli á Hlíðarenda
Það vantaði ekki fjörið á upphafsmínútum í leik Vals og Keflavíkur í gærkvöldi. Gummi Steinars komst í dauðafæri strax á fyrstu mínútuni, Pétur G. Markan skoraði fyrir Val á 3. mínútu og Haukur Ingi jafnaði eftir frábæra stungusendingu á 5. mínútu. Fólk var varla búið að koma sér fyrir þegar staðan var orðin 1-1. Helgi Sigurðsson kom svo Val yfir á 15. mínútu. Leikurinn var jafn, mikið um miðjubaráttu og bæði lið í færum. Kjartan Sturluson markvörður Vals var í fantaformi og varði nokkrum sinnum mjög vel.
Í seinni hálfleik var Keflavík mun sterkari aðilinn og sótti mikið. Það var þó ekki fyrr en á 71. mínútu sem Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði af stuttu færi og jafnaði leikinn. Jóhann hafði komið inn á sem varamaður tveimur mínutum áður. Eftir markið sóttu bæði lið en góð markvarsla hjá Kjartani og Lasse komu í veg fyrir fleiri mörk.
Næsti leikur er gegn FH í átta liða úrslitum VISA-bikarkeppninnar á Sparisjóðsvellinum í Keflavík á fimmtudaginn kl. 19:15.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Einar Orri Einarsson, Alen Sutej, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson fyrirliði (Jóhann Birnir Guðmundsson 69.), Símun Samúelsen, Haukur Ingi Guðnason (Stefán Örn Arnarson 55.) og Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bessi Víðisson, Magnús Þórir Matthíasson, Magnús Þór Magnússon og Þorsteinn Atli Georgsson.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með leyfi þeirra:
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var virkilega ósáttur við leik sinna manna er þeir gerðu jafntefli við Valsmenn í kvöld.
,,Við erum gríðalega ósáttir með þetta. Við mættum hálfpartinn hræddir til leiks og of margir lykilmenn spila undir getu og það þýðir það að liðið spilar illa, sérstaklega fyrri hálfleikinn. Við erum bara verulega ósáttir við það að ná eingungis einu stigi" sagði Kristján við fótbolta.net eftir leikinn.
Hvað er það sem gerir það að verkum að menn spila undir getu?
,,Þetta er svakalega erfið spurning en ég held að menn verði að undirbúa sig betur andlega fyrir leikinn og jafnvel líkamlega líka"
Keflvíkingar eru jafntefliskóngarnir í deildinni með 6 jafntefli.
,,Við þurfum að fara að snúa þessum jafnteflum upp í sigra. Við gátum það eftir að við vorum búnir að jafna. Símun fékk hérna dauðafæri en hitti ekki boltann og þar hefðum við getað lokað þessum leik. Það er þetta sem við þurfum að fara að gera, við þurfum að fara að vera kaldar fyrir framan markið í lok leikjana.
Við komum hérna inná og horfum á leikinn til að byrja með. Hræddir við að taka ákvarðanir og hræddir við að taka af skarið, hræddir við að fara almennilega í sókn. Á meðan horfum við á einhver fáranleg mörk detta inn hjá okkur. Það er ekki fyrr en í seinni hálfleik sem við hysjum upp um okkur buxurnar og við getum horft á það sem jákvæðan punkt að við vinnum seinni hálfleikinn " sagði Kristján að lokum
Haukur Ingi jafnar í 1-1.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)