Flott dagskrá á Herrakvöldi
Endanleg dagskrá fyrir Herrakvöld Knattspyrnudeildar Keflavíkur liggur nú fyrir. Ekkert hefur verið til sparað til að kvöldið verði sem glæsilegast. Boðið verður upp á sjávarrétti frá Fylgifiskum í forrétt. Í aðalrétt verður blandað heitt og kalt borð, kaldur kjúklingur, skinka, heitt lambakjöt svo eitthvað sé nefnt, heitar sósur og meðlæti af öllum gerðum. Dagskrá kvöldsins verður hlaðin hverju stóratriðinu af fætur öðru og mun veislustjórinn Halldór Einarsson, Henson stjórna dagskránni og sjá til þess að hæfilegt bil verði á milli atriða svo menn fái ekki krampa af hlátri. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, verður ræðumaður kvöldsins en hann er einn alskemmtilegasti tækifærisræðumaður landsins. Okkar maður Rúnar Júlíusson klikkar aldrei og settu þeir Össur og Henson það sem skilyrði að Rúnar væri með. Þá er Ómar Ragnarsson með Hauk Heiðar á píanóinu í feykna formi og óvæntasta atriði kvöldsins verður best falda leyndarmál skemmtanabransans, „RÖGNVALDUR GÁFAÐI“, einhver sá flottasti í dag.
Frá og með föstudeginum 5. apríl verða leikmenn Keflavíkur með aðgöngumiða til sölu og eins fást þeir á skrifstofu Knattspyrnudeildar í Sundlaugarkjallara, upplýsingar í síma 421-5188 og 894-3900. Við hvetjum vinnustaðahópa til að setja sig í samband við skrifstofuna og vera með. Herrakvöldið verður haldið í Stapanum miðvikudaginn 4. maí, daginn fyrir uppstigningadag. Húsið opnar kl. 19:30 og borðhald hefst kl. 20:00. ási