Fréttir

Knattspyrna | 19. maí 2009

Flottur sigur á Valsmönnum

Það var rjómablíða í gærkvöldi þegar Keflvíkingar tóku á móti stjörnum prýddu liði Valsmanna í 3. umferð Pepsi-deildarinnar á Sparisjóðsvellinum og það var vel mætt á völlinn.  Valsmenn byrjuðu betur fyrstu mínúturnar og voru meira með boltann.  En á 6. minútu skoraði fyrirliðinn Guðjón Árni gott skallamark eftir frábæra sendingu Simuns.  Fljótlega eftir markið komst Haukur Ingi í dauðafæri en Valsmenn björguðu á línu og síðan átti Jóhann Birnir skot úr aukaspyrnu rétt framhjá.  Á 20. minútu skoraði Hörður gott mark og aftur var það Simun sem átti stoðsendinguna.  Staðan orðin 2-0 og liðið til alls líklegt.  Valur fékk eitt og eitt hálffæri sem Lasse átti ekki í vandræðum með.  Staðan góð í hálfleik og feikna stemmning á pöllunum.

Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar Haukur Ingi fékk aftur dauðafæri en Kjartan Valsmarkvörður varði vel.  Okkar menn réðu ferðinni og á 70. minútu skoraði Hörður aftur og nú eftir að Haukur Ingi hafi rennt boltanum til hans í teignum.  Hörður sett´ann laglega og staðan orðin 3-0.  Eftir þetta gerði Kristján þrjár breytingar á liðinu.  Haukur Ingi fékk hvíldina á 76. minútu eftir að hafa hlaupið allan leikinn og Magnús Þórir kom í hans stað.  Jóhann Birnir kom út af skömmu seinna og hinn 16 ára Bojan Stefán Ljubicic kom inn á í sínum fyrsta leik og stóð sig vel.  Svo kom Tómas Karl einnig inn á og lék sinn fyrsta leik en hann tók stöðu Brynjars í bakverðinum undir lok leiksins.  Frábær sigur í höfn og liðið miklu sterkara allan leikinn.

Það er rétt að minnast sérstaklega á þátt Símun Samuelsen sem stóð sig frábærlega í stöðu Hólmars Arnar á miðjunni.  Símun lagði upp tvö mörk og var sívinnandi allan leikinn.  Annars er alltaf erfitt að velja einhvern út þegar liðið spilar jafn vel eins og það gerði í gærkvöldi.  Við verðum líka að minnast á stuðningsmenn okkar sem sungu og trölluðu allan leikinn og voru hreint út sagt stórkostlegir og önnur lið hljóta að öfunda okkur af þessum frábæru stuðningsmönnum.

Keflavík:  Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Alen Sutej, Brynjar Örn Guðmundsson (Tómas Karl Kjartansson 89.) - Magnús Sverrir Þorsteinsson, Símun Samuelsen, Jón Gunnar Eysteinsson,  Jóhann Birnir Guðmundsson (Bojan Stefán Ljubicic 82.) - Haukur Ingi Guðnason (Magnús Þórir Matthíasson 76.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bessi Víðisson, Einar Orri Einarsson og Magnús Þór Magnússon.

Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.
Áhorfendur: 1.680.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir


Hörður skorar og staðan orðin 2-0.


Þriðja markinu vel fagnað.


Kristján þakkar stuðningsmönnum, myndaður í bak og fyrir.