Flottur sigur í Garðabænum
Keflavík vann glæsilegan útisigur á Stjörnunni þegar liðin mættust á Samsung-vellinum í Garðabæ í 14. umferð Pepsi-deildarinnar. Okkar menn skoruðu tvö mörk undir lok leiksins og tryggðu sér 3-1 sigur. Það var Guðmundur Steinarsson sem kom Keflavík yfir snemma leiks en Mark Doninger jafnaði fyrir heimamenn um miðjan fyrri hálfleik. Á 68. mínútu kom Hörður Sveinsson okkar liði aftur yfir í fyrsta leik sínum með Keflavík síðan 2010 og Jóhann Birnir Guðmundsson gulltryggði sigurinn með marki í blálokin.
Eftir leikinn er Keflavík í 6.-7. sæti deildarinnar með 21 stig. Næsti leikur er heimaleikur gegn ÍA á Nettó-vellinum í Keflavík sunnudaginn 12. ágúst kl. 19:15.
-
Leikurinn var 16. leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í efstu deild. Þetta var 7. sigur Keflavíkur, Stjarnan hefur unnið fjóra leiki og fimm sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 26-21 fyrir Keflavík.
-
Keflavík vann annan útileikinn í röð gegn Stjörnunni en hafði áður aðeins unnið einn af sjö deildarleikjum á heimavelli Garðbæinga.
-
Guðmundur Steinarsson skoraði 80. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild. Markið var jafnframt sjötta mark hans í sumar og er hann markahæsti leikmaður liðsins.
-
Svo skemmtilega vill til að Hörður Sveinsson og Jóhann Birnir Guðmundsson skoruðu báðir 31. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild. Þeir eru nú 6.-8. sæti yfir markahæstu leikmenn félagsins frá upphafi ásamt Jóni Ólafi Jónssyni. Nú er hins vegar orðið nokkuð langt í næsta mann á listanum en það er Þórarinn Kristjánsson með 48 mörk.
-
Fyrirliðinn Haraldur Freyr Guðmundsson þurfti að fara af leikvelli eftir að hafa fengið höfuðhögg. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem sauma þurfti 8 spor! Fylgdarmaður hans var í beinu sambandi við völlinn þannig að Haraldur gat fylgst með sinu liði tryggja sér þennann mikilvæga sigur.
-
Rafn Markús Vilbergsson kom inn á fyrir Harald Frey og lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík en hann kom frá Njarðvík á dögunum á lánssamningi.
Fótbolti.net
Keflvíkingar voru góðir í leiknum en að sama skapi voru Stjörnumenn langt frá sínu besta. Einhver gæti sagt að þeir séu með hugann við bikarúrslitaleikinn sem er á næstu grösum en það á ekki að vera nein afsökun. Lykilmenn liðsins voru slakir í kvöld fyrir utan Mark Doninger sem var þeirra hættulegasti maður.
Það er þó ekki ætlunin að gera lítið úr liði Keflvíkinga sem eru með hörkulið sem spilar flottan bolta. Þeir misstu Guðmund Steinars af velli í fyrri hálfleik og svo fyrirliðann sinn Harald Frey í þeim síðari en samt sem áður var sigur þeirra sanngjarn. Það er erfitt að taka einhvern einn út sem þeirra besta mann í kvöld en Frans Elvarsson var öflugur allan leikinn og því fær hann nafnbótina maður leiksins.
Fréttablaðið / Vísir
„Mjög sterkur sigur, þetta er erfiður útivöllur gegn Stjörnunni sem eru vel mannaðir með stóra og sterka stráka sem spila flottan sóknarbolta," sagði Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavíkur ánægður eftir leikinn.
„Fyrsta hálftímann spiluðum við mjög vel, sköpuðum fullt af færum til að skora 1-2 mörk í viðbót. Svo gleymum við okkur aðeins og fáum okkur jöfnunarmark, þá missum við nokkra menn útaf í meiðsli og við föllum aðeins aftur."
Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og áttu margar góðar sóknir með vindinn í bakinu og skoruðu stórglæsilegt mark úr langskoti.
„Mér fannst við spila mjög vel, boltinn gekk vel og það var ekkert kick-and run. Við fengum færi með spili og við vorum klaufar að nýta okkur ekki betur flott spil í sóknarleiknum."
Hörður Sveinsson átti flotta innkomu í kvöld en hann sneri aftur frá Valsmönnum fyrir stuttu.
„Hann stóð sig mjög vel, hann fékk gleðina strax aftur á fyrstu æfingu og hann verðskuldaði þetta mark. Þetta var flott mark og gríðarlega mikilvægt fyrir hann til að fá sjálfstraustið aftur. Ég veit ekki hvað gerðist hjá Val en hann þekkir strákanna hérna og það var ekkert vandamál að koma aftur."
Keflvíkingar minnkuðu bilið milli liðanna í aðeins eitt stig eftir leikinn í kvöld.
„Við höfum okkar eigin markmið og við viljum ekkert pæla í öðru en það. Við ætlum okkur að einbeita okkur að næsta leik gegn Akranesi og ég vil bara hugsa um það. Ég vill að strákarnir fari út og skemmti sér og spili góðan fótbolta, á meðan þeir gera það og leggja sig alla fram þá eigum við alltaf góða möguleika," sagði Zoran.
Ómar 7, Hilmar Geir 6 (Grétar Atli 5), Jóhann Ragnar 5, Magnús Þór 6, Haraldur 5 (Rafn Markús 6), Denis 6, Arnór Ingvi 7, Frans 7, Magnús Sverrir 6, Jóhann Birnir 8, Guðmundur 6 (Hörður 7)
Morgunblaðið / Mbl.is
Hörður Sveinsson kom með mikið líf inn í sóknarleik Keflavíkur sem vann Stjörnuna 3:1 í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í gær. Hann kom inn á fyrir Guðmund Steinarsson þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Guðmundur gerði eitt af mörkum tímabilsins þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins. Eftir að hann fór út af í stöðunni 1:1 fór væntanlega um margan Keflvíkinginn í stúkunni. Hörður stóð sig hins vegar með prýði en hann er uppalinn Keflvíkingur og endurnýjaði kynnin í félagaskiptaglugganum eftir stutta dvöl hjá Val.
Hann stimplaði sig inn með góðu marki 20 mínútum fyrir leikslok og það reyndist mikilvægt. »Það er frábært að ná að skora í fyrsta leik. Ég var bara mjög ánægður með að skora og fá að spila í þessum leik,« sagði Hörður.
Blaðamaður spurði hann hvort honum liði ekki vel í Keflavíkurbúningnum: »Jú mér líður alltaf vel í búningnum. Mér leið líka vel hjá Val en það gekk ekki alveg upp. Ég ákvað því bara að breyta til.«
Til eru mörg dæmi þess að eftir því sem lengra líður frá því framherji gengur til liðs við félag, þeim mun erfiðara getur hann átt uppdráttar. Hörður á ekki í neinum vandræðum með það eftir þetta mark. »Það er alltaf frábært. Ég hefði ekki getað beðið um betri byrjun og auk þess sigur fyrir liðið.«
MM: Jóhann Birnir.
M: Ómar, Magnús Þór, Arnór Ingvi, Hörður.
Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar sóttu glæsilegan sigur á Stjörnumönnum í Garðabæ nú fyrir skömmu í Pepsi-deildinni í knattspyrnu en strákarnir úr Bítlabænum unnu 1-3 sigur. Keflvíkingar komust yfir með frábæru marki frá Guðmundi Steinarssyni en Mark Doninger jafnaði metin skömmu síðar fyrir heimamenn. Hörður Sveinsson, sem kom inn á fyrir Guðmund Steinarsson stipmlaði sig aftur inn í Keflavíkurliðið í síðari hálfleik en hann kom þeim yfir eftir varnarmistök Stjörnunnar.
Það var svo Jóhann B. Guðmundsson sem innsiglaði sigur Keflvíkinga með góðu marki í blá lokin. Keflvíkingar eru nú í 4.-5. sæti deildarinnar með 21 stig.
Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga var ánægður í leikslok með frammistöðu sinna manna. „Við lékum oft góðan fótbolta og héldum haus þó við misstum lykilmenn útaf eins og Guðmund Steinarsson og Harald Guðmundsson. Ungu strákarnir okkar sýndu hvað þeir geta og þetta var góður og mikilvægur sigur,“ sagður ánægður þjálfari eftir leikinn.
433.is
Mark umferðarinnar: Guðmundur Steinarsson
Gummi Steinars er heldur betur með vinstri fótinn í lagi og það sannaði hann í 3-1 sigri Keflvíkinga gegn Stjörnunni. Hann skoraði fyrsta mark leiksins með stórkostlegu skoti út við vítateigshornið. Magnað mark og hann á hugsanlega tvö bestu mörk sumarsins!
Heimkoma umferðarinnar: Hörður Sveinsson
Hörður Sveinsson sneri aftur í lið Keflavíkur eftir heldur betur mögur ár hjá Val, og hann tók sig til og skoraði í sínum fyrsta leik fyrir sína nýju (gömlu) félaga. Hann kom þeim í 2-1 gegn Stjörnunni og má segja að mark hans hafi verið vendipunktur í leiknum. Þá var hann einnig hættulegur í leiknum í fleiri tilfellum.
Pepsi-deild karla, Samsung-völlurinn, 8. ágúst 2012
Stjarnan 1 (Mark Doninger 30.)
Keflavík 3 (Guðmundur Steinarsson 8., Hörður Sveinsson 68., Jóhann Birnir Guðmundsson 90.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Hilmar Geir Eiðsson (Grétar Atli Grétarsson 67.), Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði (Rafn Markús Vilbergsson 55.), Magnús Sverrir Þorsteinsson, Denis Selimovic, Arnór Ingvi Traustason, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson (Hörður Sveinsson 36.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic.
Gul spjöld: Haraldur Freyr Guðmundsson (27.), Magnús Þór Magnússon (34.), Denis Selimovic (50.)
Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson.
Aðstoðardómarar: Leiknir Ágústsson og Smári Stefánsson.
Varadómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.
Eftirlitsdómari: Ingi Jónsson.
Áhorfendur: 570.
Myndir: Jón Örvar.