Fréttir

Knattspyrna | 6. júlí 2007

Flug með Icelandair á vefsíðum íslensku knattspyrnuliðanna

Icelandair og öll liðin í Landsbankadeild í knattspyrnu skrifa í dag undir samstarfssamning, sem felur í sér að nú geta stuðningsmenn og áhangendur liðanna styrkt sín lið fjárhagslega  með því að bóka  flug beint á heimasíðu síns liðs. Á heimasíðum allra liðanna verður beinn aðgangur að bókunarvél Icelandair á netinu. Því fleiri stuðningsmenn sem bóka sig á síðu síns félags, þeim mun hærri verður styrkur Icelandair til félagsins. Upphafsstyrkur Icelandair til félaganna tíu er samtals 2.5 milljónir króna, en heildarupphæðin getur orðið mun hærri ef stuðningsmenn eru duglegir að bóka sig.

Í raun er þetta kerfi ekki ósvipað því sem Íslensk getspá hefur byggt upp með fótboltafélögunum með 1X2 getraunir. Báðir samningsaðilar, Icelandair og knattspyrnufélögin,  sjá sér hag í samstarfinu því með því verður flug Icelandair kynnt innan félaganna og félögin geta náð umtalsverðum fjárhagslegum stuðningi ef vel er á málum haldið af þeirra hálfu. Í því samhengi hefur Icelandair tilkynnt að það liðanna sem selur flestar flugferðir í gegnum heimasíðu sína muni fá að launum skemmtiferð á úrvalsdeildarleik í London, fyrir 20 manna hóp.

Íslenska íþróttahreyfingin er stór og mikilvægur viðskiptavinur Icelandair og félagið hefur verið öflugur bakhjarl íslenskra landsliða um árabil. Þá er leiðakerfi Icelandair, sem tryggir tíðar ferðir til og frá landinu allan ársins hring, ein af unirstöðunum fyrir alþjóðaþáttöku íslensks íþróttafólks.