Fréttir

Knattspyrna | 2. febrúar 2010

Formannsræða frá aðalfundi

Aðalfundur Knattspyrnudeildar var haldinn þann 28. janúar.  Hér er ræða Þorsteins Magnússonar, formanns deildarinnar, þar sem hann fór yfir stöðu mála hjá deildinni.

Það er ár á morgun síðan ég stóð hér í þessri pontu og sagði þessi orð, ,,það gengur ekki fyrir svona stóra deild eins og okkar að búa við þetta aðstöðuleysi ár eftir ár" og þá átti ég við útisvæði fyrir æfingar og leiki.

Í dag erum við að eignast frábæra aðstöðu.  Nýtt æfingasvæði fyrir ofan Reykjaneshöll er orðið að veruleika; 22 þúsund fermetrar sem búið er að tyrfa og á það eftir að breyta gríðarlega miklu varðandi æfingar og leiki, sérstaklega fyrir yngri flokka.

Upptekning á aðalleikvang okkar við Hringbraut (Sparisjóðsvellinum) er eins og allir vita langt komin,.  Þar verður lagt nýtt gras og grassvæði stækkað sem kemur til með að nýtast betur til æfinga fyrir meistaraflokka félagsins.  Upphitun verður í vellinum ásamt vökvunarkerfi.  Þetta er eitthvað sem við sáum ekki vera að gerast fyrir ári síðan og erum við gríðarlega ánægðir með bæinn okkar Reykjanesbæ sem hefur svo sannarlega sýnt okkur í verki hversu megnugur hann er.  En við erum hvergi hættir því næsta baráttumál okkar verður ný 2000-2500 manna stúka.

Meistaraflokkur karla mun spila á Njarðvikurvelli fyrstu heimaleiki sína næsta sumar vegna upptekningar á vellinum og meistaraflokkur kvenna kemur til með að spila á Iðavöllum 7.  Það má segja um síðasta sumar að meistaraflokkar karla og kvenna hafi ekki staðið undir væntingum.  Kvennaliðið féll um deild með gríðarlega ungt lið sem átti í erfiðleikum allt sumarið og karlaliðið reis hæst á fyrstu tveim mánuðum tímabilsins og féll svo í mikla lægð sem náðist ekki að snúa við og sjötta sætið staðreynd.  Á haustmánuðum var skipt um skipstjóra hjá báðum liðum.  Steinar Ingimundarson var ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna og Willum Þór Þórsson, sem er mikill sigurvegari, tók við karlaliðinu.  Það má segja um þann ágæta mann að hann kann ekki að tapa.  Hann hefur unnið allt á Íslandi og eins og við öll á hann eitt takmark og það er að gera Keflavík að Íslandsmeisturum í ár.

Einn flokkur stóð upp úr öllu starfi deildarinnar árið 2010 en það var 3. flokkur karla sem vann allt sem þeir kepptu um.  Það var algjör unun að fylgjast með þeim en þar eru topp drengir á ferð.  Zoran og Haukur sáu um þjálfun á þessum strákum en það er löngu tímabært að við förum að fá inn flotta stráka þar sem vöntun hefur verið mikil síðustu ár á ungum strákum uppí meistaraflokk.  Gerðir voru leikmannasamningar við þá efnilegustu og bindur Knattspyrnudeildin miklar vonir við þessa ungu leikmenn sem hafa fengið að spreyta sig nú á haustmánuðum með meistaraflokki. karla.

Árið 2009 verður minnst sem frekar erfiðs árs fjárhagslega þar sem ástandið í þjóðfélaginu átti sinn þátt í því að erfitt var að ná endum saman.  Okkur hjá  Knattspyrnudeildinni tókst nokkuð vel að halda í okkar styrktaraðila og erum við ríkir af sterkum bakhjörlum sem stóðu fast við bakið á deildinni þrátt fyrir ástandið í landinu.  Þeirra stærstir eru Reykjanesbær og Sparisjóðurinn í Keflavík og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir frábært samstarf síðastliðið ár.

Í dag eru 100 dagar í fyrsta leik hjá meistaraflokki karla í Pepsí-deildinni og er undirbúningur fyrir sumarið í fullum gangi.  Ég bind miklar vonir við að liðið springi út í sumar líkt og það gerði árið 2008.  Við höfum styrkt liðið og munum jafnvel bæta við leikmönnum fyrir mót.  Samið hefur verið við Paul McShane sem kemur í mars og einnig við Harald Guðmundsson sem verður með okkur í sumar svo lengi sem honum verði ekki boðinn samningur hjá erlendu liði fyrir 1. febrúar.  Að öðru leyti höldum við okkar mannskap fyrir utan Simun Samuelsen sem er á förum frá okkur.  Liðið er gríðarlega sterkt og hef ég mikla trú á því ásamt þjálfarateymi okkar að þetta verði sumarið okkar.

Ég vil þakka sérstaklega þeim stjórnarmönnum sem hafa starfað með mér síðastliðið á fyrir þeirra vinnu.  Einnig vil ég þakka öllum þeim stjórnum og ráðum ásamt þjálfurum og foreldrum, stuðningsmönnum og styrktaraðilum fyrir þeirra framlag árið 2009.

Mynd: Jón Örvar