Fótboltasumarið 2005 komið út
Við vekjum athygli á því að tímaritið „Fótboltasumarið 2005“ er komið út og má nálgast það ókeypis í verslunum Olís í Keflavík og Njarðvík. Einnig má fá blaðið á skrifstofu knattspyrnudeildar í Sundkjallaranum. Blaðið er glæsilegt og efnismikið að vanda. Þar má finna allar upplýsingar um íslenska knattspyrnusumarið eins og kemur fram í eftirfarandi tilkynningu frá útgefendum.
Tímaritið Fótboltasumarið 2005 er komið í dreifingu en þetta er þriðja árið í röð sem tímaritið kemur út. Því verður dreift í öllum útibúum Landsbankans og hjá íþróttafélögunum sem eiga lið í Landsbankadeildum og 1. og 2. deild karla auk betri íþróttavöruverslana. Upplagið er 25 þúsund eintök og má nálgast það frítt á áður nefndum stöðum.
Tímaritið er enn glæsilegra í ár en áður og telur nú 196 blaðsíður og yfir 500 ljósmyndir. Meðal efnis er kynning á öllum liðum í Landsbankadeild karla og kvenna og 1. og 2. deild karla. Kynning á dómurum, ýmis konar tölfræði, myndir af öllum leikmönnum Landsbankadeildar karla og upprifjun á knattspyrnusögunni.
Hinir ýmsu pistlahöfundar rita pistla og má þar nefna Eggert Magnússon, Eyjólf Sverrisson, Henson, Ómar Smárason og fleiri.
Fótboltasumarið 2005 mun í sumar í samstarfi við fotbolti.net standa fyrir skemmtilegum verðlaunagetraunum, samkeppnum og skoðanakönnunum á www.fotboltasumarid.is.