Fótbolti-net - Sektarsjóður Keflavíkur...
Félagar okkar hjá Fótbolta.net eru nú að hita upp fyrir Pepsi-deildina og á dögunum var komið að Keflavík. Þar birtist m.a. frétt um sektarsjóð liðsins en þar kennir ýmissa grasa. Hérna er fréttin og yfirlit yfir sektirnar sem piltarnir okkar greiða.
Mynd: Þó ótrúlegt sé er þessum piltungum treyst fyrir sektarsjóði Keflavíkur.
Hjá félögum í Pepsi-deildinni eru leikmenn með sektarsjóð innan liðsins. Þar fá leikmenn sektir fyrir ýmsa hluti en sektirnar renna síðan í sameiginlegan leikmannasjóð. Í tengslum við spána fyrir Pepsi-deildina er ætlunin að skoða sektarsjóðskerfið hjá félögum og í dag er komið að Keflvíkingum.
,,Ég held að það sé óhætt að segja að Einar Orri sé sektarkóngurinn. Hann safnar mikið litlum sektum en eins og oft þá gerir margt smátt eitt stórt. Um daginn á æfingu gerði Einar Orri meðal annars veðmál við Gunna Odds þjálfara að ef hann myndi klobba hann í reit þá borgaði hann 1000 kr í sektarsjóðinn. Gunni Odds greip þá gæsina og klobbaði hann tvisvar í umræddum reit," segir Viktor Smári Hafsteinsson en hann og Magnús Þór Magnússon sjá um sektarkerfi Keflvíkinga.
Keflvíkingar eru með nokkrar áhugaverðar reglur sem flest önnur félög hafa ekki á sínum sektarlista.
,,Við erum með þá skemmtilegu reglu að nýliðar verða að snoða sig fyrir fyrsta leik eða borga 7.500 kr í sekt og því eru nýliðarnir oft nokkrum krónum færri mánuðina fyrir fyrsta leik í Íslandsmóti."
,,Svo erum við einnig með skemmtilegar reglur tengdum afmælisdögum og rauðum spjöldum en þá er sá leikmaður sem á afmæli eða fær rautt spjald skyldugur að koma með bakkelsi á næstu æfingu. Því sjást ósjaldan mjög veglegar veitingar niðri í klefa og það er gott að koma í köku og með því eftir erfiða æfingu."
,,Einu sinni var líka sekt ef að maki/kærasta leikmanns sást nálægt eða á æfingasvæðinu en ákveðið var að hafa þá reglu ekki með að þessu sinni því að Grétar Atli Grétarsson (Kúri) hafði ekki við því að borga þær sektir, ófáar kærusturnar þar á bæ."
Sektarsjóðurinn hjá Keflvíkingum er að skila 50-60 þúsund krónum á mánuði en liðið situr á feitum sjóði í dag.
,,Sjóðurinn frá því í fyrra er enn ónotaður og nokkrar hugmyndir hafa komið, kaupa flatskjá og PS3 inní klefa, halda eitt gott party, gera eitthvað allir saman í liðinu o.fl. en engin niðurstaða hefur fengist og því sitjum við ennþá á þvílíkum auðæfum," sagði Viktor Smári að lokum.
Sektarreglur Keflavíkur:
1. Mæta of seint í leik (Gildir fyrir alla leiki!) = 5.000 Kr
2. Mæta of seint á æfingu, fund eða annað slíkt á vegum Keflavíkur = 1.000 Kr
3. Leikmaður ekki í réttum fatnaði á leikdegi = 1.500 Kr
4. Leikmaður merktur öðru félagi á æfingu = 250 kr
5. Leikmaður sem fer í leikbann (uppsöfnuð gul spjöld og Rautt spjald) = Skal koma með bakkelsi á næstu æfingu fyrir hópin að verðmæti 6.000 Kr
6. Gult spjald = 500 Kr
7. Rautt spjald = 2.500 Kr
8. Sími hringir á fundi = 1.000 Kr
9. Gleymd flík og skór á æfingasvæði =250 kr
10. Föt, skór, handklæði eða annað sem skilið er á gólfi eftir æfingar = 500 Kr
11. Leikmaður sem skorar sjálfsmark í leik = 1.500 Kr
12. Klobbi í reit = 250 kr ( í hverjum reit er einn valinn og þarf sá einstaklingur að borga 500 Kr fyrir hvern klobba)
13. Taka í vörina (Lumma) í klefanum = 350 Kr (hægt verður að kaupa klippikort sem gildir út mánuðinn á 1500 kr)
14. Leikmaður sem skiptir um númer á keppnisbúningi á milli tímabila = 1.000 Kr
15. Leikmaður skal vera snoðklipptur eftir fyrsta leik með mfl eða borga = 7.000 Kr
16. Leikmaður sem sést á skemmtistað/pub 3 dögum fyrir opinberan leik skal Greiða = 500 Kr
17. Fjórir yngstu skulu sjá um að allir boltar séu harðir, vesti og keilur komnar á æfingasvæðið fyrir hverja æfingu og að fyrir hvern leik séu græjur komnar inn í klefa = 500 kr ( hver leikmaður)
* Hver leikmaður skal borga 750 Kr í leikmannasjóð hvern mánuð.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=125189#ixzz1tFmI1VBd