Fótbolti.net í ham
Hafliði á fotbolta.net sendir mér undirrituðum kaldar kveðjur á netsíðu sinni í dag 13. janúar. Hafliði hefur mér vitandi aldrei sent mér sem framkvæmdastjóra Keflavíkur eða Knattspyrnudeild Keflavíkur bréf þar sem óskað er eftir samskiptum við vefsíðuna. Hafi bréfið verið yfirhöfuð sent hefur það ekki borist mér í hendur. Hafliði segist hafa sent mér póst og "krafist" svara. Þar sem ég á í samskiptum við menn og þeir eru ótrúlega margir og mjög víða, þau samskipti öll eru og hafa nánast undantekningarlaust verið á góðum og léttum nótum þar sem menn "óska" svara ef svo ber undir. Einhverra hluta vegna hefur póstur sem ég sendi á netfang sem Hafliði gaf upp í "kröfubréfinu" misfarist en þrátt fyrir mikið annríki síðustu daga gaf ég mér þó tíma til að svara kröfubréfinu. Vissi upp á mig skömmina. Ritaði nafn, símanúmer og netfang sem upp var gefið í blaðamannabókina mín. Hef trúlega eins og oft áður farið of geyst og ekki ráðið við hraðann en dreka eins og mig er ekki gott að stöðva þegar þeir eru komnir á siglingu. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda innihald bréfsins hér og tek ekki þátt í argaskrifum við ykkur, kæru félagar. Það var þó fullt iðrunar og fyrirgefningar eins og kristilegu kærleiksblómi eins og mér er von og vísa. Þrátt fyrir littla notkun mína á netsíðum er mér fullkomlega kunnugt um vasklega framgöngu ykkar, áhuga og dugnað. Hjá mér fyllist skrifstofan í hverjum kaffitíma og oftar en ekki vitnað í skrif ykkar. Mín von er sú að yfirsjónir mínar í þessu máli skaði ekki samstarf ykkar við Keflavík, það hefur verið mjög gott. Það er oft ágætt að gefa bílum inn þegar hann hefur gengið lausagangi í of langan tíma, hann hóstar úr skítnum og er fínn á eftir. Ég óska ykkur góðs gengis um ókomna tíð.
Sjáumst á næsta blaðamannafundi,
Ásmundur Friðriksson, framkvæmdastjóri Keflavíkur