Fótbolti.net spáir 9. sætinu - Viðtal við Zoran
Fótbolti.net spáir nú í gengi liðanna í Pepsi-deildinni í sumar og þar er Keflavík spáð 9. sætinu. Einnig er birt viðtal við Zoran þjálfara þar sem hann tjáir sig um spána og tímabilið framundan.
„Miðað við þær breytingar sem hafa orðið á liðinu yrði þetta kannski ekkert slæm niðurstaða," segir Zoran Daníel Ljubicic en Keflavík er spáð níunda sæti Pepsi-deildarinnar þetta tímabilið.
„Við höfum misst nokkra leikmenn frá því í fyrra og ekki náð að styrkja okkur eins mikið og við vildum. Miðað við baslið á síðustu tveimur árum með mun sterkari hóp þá kemur mér ekki á óvart að okkur sé spáð níunda sæti. Með réttu hugarfari og góðri stemningu tel ég samt að við getum gert enn betur,"
„Það er mjög jákvætt hve stór hluti liðsins eru heimamenn sem fóru í gegnum yngri flokka okkar. Það má alls ekki gleyma því samt að við erum með nokkra eldri leikmenn sem eru mjög mikilvægir. Það er samt smá bil í aldursskiptingunni, við höfum ekki marga leikmenn sem eru mitt á milli 20 og 30 ára," segir Zoran.
„Ég er mjög sáttur við undirbúningstímabilið. Ég tel okkur hafa náð markmiðum okkar í því sem við ætluðum að bæta. Það var stígandi allan tímann. Við byrjuðum illa í Lengjubikarnum en síðan hefur verið stöðug bæting og við erum taplausir frá því í febrúar ef horft er á 90 mínútna leiki. Við höfum ekki tapað í sjö leikjum í röð og það virðist kominn ákveðinn stöðugleiki."
Deildin verður jafnari á toppi og botni
Zoran tók við Keflavíkurliðinu í vetur eftir að hafa þjálfað 2. flokk félagsins. Hvernig fótbolta vill hann að sitt lið spili?
„Ég var þannig leikmaður sjálfur að ég vill sjá lið halda boltanum. Undanfarin tvö ár hefur liðið spilað of mikið með löngum boltum og ég vil breyta því. Ég vil boltann meira á jörðinni og fá meiri sóknarbolta. Þetta hefur gengið ágætlega í vetur og vonandi getum við haldið áfram sama striki."
Zoran býst við að deildin í sumar verði mjög jöfn, bæði á toppi og botni. „Ég held að hún verði jafnari en undanfarin ár. KR og FH eru alltaf sterk, Fram hefur spilað mjög vel í vetur. Valur hefur staðið sig vel og Stjarnan er með mjög sterkan hóp. Svo geta tvö til þrjú lið komið á óvart," segir Zoran Daníel Ljubicic.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=125128#ixzz1tAEZ9zMJ