Frá aðalfundi Knattspyrnudeildar
Þriðjudagskvöldið 31. janúar var aðalfundur Knattspyrnudeildar Keflavíkur haldinn í K-húsinu. Fundurinn var vel sóttur af 30 áhugasömum stjórnar-, deilda- og stuðningsmönnum Keflavíkur. Í skýrslu formanns Knattspyrnudeildar, Rúnars V. Arnarsonar, kom fram að mikil gróska var í starfsemi allra deilda knattspyrnunnar í sumar og víðast náðist góður árangur. Rúnar þakkaði sérstaklega áhugasömu Barna - og unglingaráði fyrir góð störf og þar væri vel haldið á málum. Þá þakkaði formaðurinn kvennaráði og 2. flokksráði fyrir þeirra góðu störf á liðnu tímabili. Fram kom í ræðu formannsins að á þessari stundu væri horft fram á veginn, loknu tímabili væri hér gerð skil en framtíðin er það sem skipti máli nú. Mikið er lagt undir hjá öllum deildum til að ná árangri næsta sumar. Sérstaklega eru miklar kröfur lagðar á herðar stjórnar, þjálfara og leikmanna meistaraflokks karla. Þar eru gerðar ríkar kröfum um árangur á næsta tímabili, mikið starf hafi farið fram í umgjörð liðsins og nokkrir nýjir leikmenn hefðu gert samninga við liðið. Í þeim hópi væru nokkrir Keflvíkingar sem sérstaklega væru boðnir velkomnir heim á ný.
Rúnar þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum samstarfið en úr stjórn gengu Sigríður Jóna Jóhannsdóttir, Hallgrímur Guðmundsson og Sævar Þorkell Jensson. Þá bauð hann nýja stjórnarmenn velkomna til starfa og vænti hann mikils af þeim, en þeir eru Jón Örvar Arason, Reynir Ragnarsson og Karl Finnbogason. Rúnar V. Arnarson var endurkjörinn formaður og aðalmenn í stjórn eru áfram Jón Olsen, Hjálmar Árnason, Oddur Sæmundsson og M. Sævar Pétursson. Til vara eru Hjörleifur Stefánsson, Ólafur Birgir Bjarnason og Halldór Leví Björnsson auk þeirra sem áður eru nefndir.
Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, skýrði fyrir fundarmönnum hvað væri helst á baugi hjá félaginu, hvaða mál væru í vinnslu en þar fer nú fremst viðbragðsáætlun vegna slysa iðkenda og bygging félagsaðstöðu við íþróttahúsið við Sunnubraut. ási
Myndir: Jón Örvar Arason
Gestir á fundinum í K-húsinu.
Rúnar formaður flytur tölu.
Kári Gunnlaugsson stýrði fundinum.
Jón Jóhannsson kynnti reikninga deildarinnar.
Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, flytur sína ræðu.
Rúnar Hannah niðursokkinn í fundargögnin.