Frá aðalfundi Knattspyrnudeildar
Aðalfundur Knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldinn fimmtudagskvöldið 28. janúar. Fundurinn hófst með venjulegum aðalfundarstörfum en það var formaðurinn Þorsteinn Magnússon sem setti fundinn og fór létt yfir störf stjórnar á árinu 2009 og árangur Keflavíkur í öllum flokkum. Árangur 3. flokks karla var það sem stóð upp úr en þeir unnu allar keppnir sem þeir tóku þátt í á árinu.
Rúnar Arnarson, frambjóðandi með meiru, var svo kosinn fundarstjóri en hann var formaður deildarinnar í 10 ár og er í stjórn KSÍ í dag. Guðni Gunnarsson fór yfir reikninga félagsins og þeir voru síðan samþykktir. Hjördís Baldursdóttir gjaldkeri deildarinnar fór yfir fjárhagsáætlun fyrir tímabilið 2010 en hún ber þess merki að ástandið í þjóðfélaginu er ekki upp á marga fiska.
Stjórn Knattspyrnudeildar var kosin og skipa hana eftirfarandi: Þorsteinn Magnússon formaður, Ólafur Birgisson, Hjördís Baldursdóttir, Einar Aðalbjörnsson, Kjartan Sigtryggsson, Ágúst Pedersen, Hjörleifur Stefánsson, Jón Ólafsson, Kristján Jóhannsson, Matthías Magnússon og Oddur Sæmundsson.
Stjórnin notaði tækifærið og heiðraði nokkra heiðursmenn fyrir þeirra framlag til knattspyrnumála síðustu ár og áratugi. Þessir voru heiðraðir að þessu sinni:
Geirmundur Kristinsson, Gullmerki KSÍ.
Birgir Runólfsson, Gullmerki KSÍ.
Elís Kristjánsson, Silfurmerki KSÍ.
Steinar Sigtryggsson, Silfurmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur.
Að lokum var orðið gefið laust og stigu nokkrir í pontu. Þar kom aðallega fram mikil ánægja með þær framkvæmdir sem ákveðið var að ráðast í á aðalvellinum. Að flestra mati var þetta löngu tímabært og með þessu væri verið að stíga stórt skref í lausn aðstöðuvandamála sem hefur því miður verið hangandi yfir deildinni í langan tíma.
Formaður unglingaráðs síðustu 7 ára minnti réttilega á að ávallt ætti að huga vel að ungviði félagsins og að alltaf væri hægt að gera betur í þeim efnum. Eins og staðan er núna er framtíðin björt bæði í karla- og kvennaflokki og þörf sé á að hlúa að ungum iðkendum.
Fundi var svo slitið á slaginu 21:00. Ágætis mæting var á fundinn og að honum loknum var gestum boðið upp á léttar veitingar.
Myndir: Jón Örvar
Reikningarnir...
...og fjármálin.
Steinar fékk silfurmerki Knattspyrnudeildar.
Elís tekur við silfurmerki KSÍ...
...Geirmundur fékk gullmerki KSÍ...
...og Birgir fékk einnig gullmerkið.
Gestir fylgjast spenntir með.
Geirmundur í pontu.
Sævar, formaður barna- og unglingaráðs.
Þorsteinn formaður lætur ljós sitt skína.