Fréttir

Knattspyrna | 26. október 2004

Frá Hertz-mótinu

Laugardaginn 23. október fór Hertz-mót Keflavíkur fram í Reykjaneshöllinni, hjá 6. flokki karla.  Það var allt iðandi af lífi í Höllinni  þennan daginn, um 200 keppendur og annað eins af foreldrum/áhorfendum.  Mótið tókst í alla staði mjög vel og voru keppendur og aðrir er lögðu leið sína í Höllina mjög ánægðir með mótið.  Einhverjum varð á orði að þetta hafi verið besta knattspyrnumótið sem hann hafi komið á!  Þetta var annað árið í röð sem þetta mót er haldið og verður hér eftir að árlegum viðburði.

Það var hart, en prúðmannlega, tekist á af liðunum sex sem öttu kappi á mótinu en þau voru; Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Fjölnir, ÍR og Breiðablik.  Í mótinu voru leiknir 60 leikir og í þeim skoruð 252 mörk, sem gerir að meðaltali 4,2 mörk í leik.

Leikið var í fjórum deildum og voru sigurvegarar deildanna sem hér segir:
Argentínska deildin: Keflavík
Brasilíska deildin: Fjölnir
Chile deildin: Breiðablik
Danska deildin: Fjölnir

Sigurliðin fengu glæsilega eignarbikara og allir þátttakendur fengu verðlaunapening.  Í lokin snæddu piltarnir svo  gómsætar pizzur frá Langbest og héldu svo saddir og glaðir heim á leið.

Myndir frá mótinu birtast hér á síðunni næstu daga.


Það voru 50 keppendur hjá Keflavík í mótinu, hér eru þeir flestir saman komnir.