Fréttir

Frá lokahófi Knattspyrnudeildar
Knattspyrna | 3. október 2012

Frá lokahófi Knattspyrnudeildar

Lokahóf Knattspyrnudeildar var haldið í félagsheimili Keflavíkur laugardaginn 29. september.  Það var skemmtilegt að hófið var haldið einmitt þennan dag en félagið okkar var einmitt stofnað 29. september árið 1929 og varð því 83ja ára sama dag.  Á hófinu var sumarið gert upp á léttu nótunum og veittar margvíslegar viðurkenningar fyrir frammistöðu í sumar og tímamót á ferli leikmanna okkar.  Þá fengu þjálfarar og liðsstjórn viðurkenningar fyrir sitt starf.

Jóhann Birnir Guðmundsson og Eydís Ösp Haraldsdóttir eru leikmenn ársins hjá meistaraflokkum karla og kvenna.  Arnór Ingvi Traustason og Kristrún Ýr Hólm voru valin efnilegust og í meistaraflokki kvenna var Karitas Ingimarsdóttir besti félaginn.  Hjá 2. flokki karla var Unnar Már Unnarsson besti leikmaðurinn, Elías Már Ómarsson efnilegastur og Arnar Már Örlygsson besti félaginn.  Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir var besti leikmaðurinn í 2. flokki kvenna, Hulda Matthíasdóttir efnilegust og Telma Rún Rúnarsdóttir besti félaginn.  Í eldri flokki drengja var Gunnar Oddsson valinn besti leikmaðurinn.

Á lokahófinu fengu markahæstu leikmenn sumarsins viðurkenningar.  Hjá meistaraflokki karla fékk Jóhann Birnir Guðmundsson gullskóinn og Guðmundur Steinarsson silfurskóinn, þeir voru reyndar með jafnmörk mörk en Jóhann lék færri leiki.  Í meistaraflokki kvenna voru einnig tveir leikmenn jafn markahæstir í sumar en þar fékk Þórunn Fanney Kristinsdóttir gullskóinn þar sem hún lék færri leiki en Karitas Ingimarsdóttir sem fékk silfurskóinn.  Hjá eldri flokki var Margeir Vilhjálmsson markahæstur.  Guðmundur Steinarsson var svo verðlaunaður fyrir mark ársins en það þarf varla að taka fram að það var markið gegn Fram á Laugardalsvellinum.

Magnús Þorsteinsson fékk viðurkenningu fyrir 200 leiki en þar er miðað við deildarleiki.  Leikur nr. 200 hjá Magnúsi kom einmitt fyrr um daginn í síðasta leik sumarsins.  Ómar Jóhannsson fékk viðurkenningu fyrir 150 leik og þau Jóhann Ragnar Benediktsson og Karitas Ingimarsdóttir fyrir 50 leiki.

Myndin með fréttinni er fengin að láni hjá Víkurfréttum.  Þar má sjá útsendara eldri flokks gera tilraun til að fá Guðmund Steinarsson til liðs við flokkinn...

Hér eru nokkrar myndir frá lokahófinu.