Fréttir

Knattspyrna | 1. september 2003

Frábær árangur hjá 4. flokki

Síðasti leikur 4. flokks í úrslitakeppninni var háður á aðalvellinum í gær sunnudag.  Þar mættust Keflvíkingar og KA-menn og með sigri myndu Keflvíkingar tryggja sér þriðja sætið á Íslandsmótinu. Keflvíkingar mættu dýrvitlausir til leiks og voru ákveðnir að bæta fyrir lélegan leik gegn Breiðablik.  Þeir sóttu stíft allan fyrri hálfleikinn og voru miklu betri en KA-menn.  Markið lét á sér standa, en þegar 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik brotnaði loks varnarmúr KA-manna og Viktor Guðnason skoraði gott mark eftir að hafa komist einn á móti markmanni og setti hann boltann af öryggi í markihornið.  Þannig var staðan í hálfleik.  Keflavíkurstrákarnir voru ekki byrjaðir í seinni hálfleik þegar KA-menn höfðu jafnað leikinn eftir aðeins 30 sekúndna leik og það er ekki hægt að neita því að mark þeirra var einstaklega glæsilegt.  Föst fyrirgjöf fyrir markið og þar kom einn KA-maður, skutlaði sér fram og skallaði boltinn glæsilega í netið.  Strax eftir markið tóku Keflvíkingar aftur öll völd á vellinum og héldu þeim það sem eftir var leiks.  Fjórum mínútum eftir jöfnunarmark KA náðu Keflvíkingar aftur forystunni og aftur varð það Viktor Guðnason sem skoraði markið.  Markið var líkt því fyrra, Viktor komst einn á móti markmanninum og renndi boltanum af öryggi í markið.  Þriðja mark Keflvíkinga kom 8 mínútum síðar og þar var Helgi Eggertsson á ferðinni.  Varnarmaður KA var með boltann og lítil hætta var á ferðinni, en Helgi byrjaði að pressa að varnarmanninum og vann síðan boltann af honum og geystist að markinum og skoraði af öryggi.  Glæsilega gert hjá Helga.  Næsta mark kom 7 mínútum fyrir leikslok og þar var Björgvin Magnússon á ferðinni, fékk boltann við hliðarlínu og einlék í gegnum vörn KA-manna og skaut glæsilegu skoti yfir markmanninn sem var kominn aðeins út úr markinu og í autt markið.  Það var síðan Viktor Guðnason sem gulltryggði sigur Keflvíkinga þegar hann skoraði sitt þriðja mark á lokamínútu leiksins; 5-1 fyrir Keflavík og Keflvíkingar lentu í þriðja sæti á Íslandsmótinu ásamt Fjölni.

Maður leiksins: Ekki er hægt að taka einn leikmann út úr liðinu.  Liðið lék frábærlega í leiknum frá aftasta manni til þess fremsta.  Þröstur Jóhannsson átti mjög góðan leik í markinu.  Vörnin var heilsteypt og vann vel saman, en hún var skipuð þeim Eiríki Erni Jónssyni, Guðmundi Sigmundssyni, Natani Frey Guðmundssyni og Arnþóri Elíassyni.  Vængmennirnir stóðu líka vel fyrir sínu, þeir Björn Geir Másson og Helgi Eggertsson.  Inn á miðjunni voru síðan þeir Einar Orri Einarsson og Guðmundur Auðun Gunnarsson.  Einar Orri spilaði frábærlega eins og vanalega, vann vel varnarvinnuna og skapaði mikinn usla með glæsilegum sendingum á framherjana.  Guðmundur var mjög duglegur í leiknum, vann varnarvinnuna vel.  Guðmundur hefur tekið miklum framförum að undanförnu og lék í gær sennilega sinn besta leik í sumar.  Í framlínunni voru síðan þeir Björgvin Magnússon og Viktor Guðnason.  Viktor átti stórleik og skoraði 3 mörk.  Björgvin átti líka góðan leik, hann nær alltaf að skapa hættu þegar hann fær boltann með hraða sínum og leikni.  Varamenn Keflvíkinga stóðu líka vel fyrir sínu þegar þeir komu inná.  En þeir voru; Pétur Elíasson, Sigfús Jóhann Árnason, Fannar Sævarsson, Stefán Lynn Price og Vilhjálmur Birnisson.