Frábær sigur á FH og undanúrslitin framundan
Það var allt til staðar í gærkvöldi, frábær lið, frábærir stuðningsmenn og frábært veður. Og umgjörðin var snilld með okkar góða völl í sínu besta standi. Það er alltaf gaman að fá FH í heimsókn, þetta sterka lið, þó svo að þeir hafi þurft að lúta í gras fyrir frábærum Keflvíkingum. Keflavík sigraði 3-1 í hörkuleik og hafa nú þegar sigrað Íslandsmeistarana tvisvar í sumar og gert eitt jafntefli. Keflavík nú komið í undanúrslitin á Laugardalsvellinum. Besta mómentið fyrir þennan leik var þegar Guðmundur Steinarsson og Tryggvi Guðmundsson leiddust inn á leikvanginn í upphafi leiks. Frábært atriði!
FH byrjaði mun betur í leiknum án þess að skapa sér nokkuð. Keflavík átti sín færi; Jóhann Birnir skallaði í slá og Halli Gumm átti skalla rétt framhjá. Fyrsta mark Keflavíkur skoraði hinn eitilharði varnamaður FH, Tommy Nielsen, þegar hann skallaði boltann í eigið net eftir frábæra ryspu Simuns 1-0. Jóhann Birnir fékk gult spjald á 35. mínútu eftir vægt brot á Davíð Þór. Staðan í hálfleik 1-0 og Keflavík búið að vera sterkara.
Það voru ekki liðnar nema þrjár mínutur að seinni hálfleik þegar Símun bætti við öðru marki Keflavíkur eftir frábæra stungusendingu Hólmars og staðan orðin 2-0 og allt leit vel út. Nú var bara spurningin hvar þriðja markið kæmi enda sóttu bæði lið af krafti. Sem betur fer var Símun í stuði og kórónaði frábæran leik sinn með marki á 58. mínútu og staðan orðin 3-0. Flottir Keflvíkingar í stuði og liðið spilaði flottan bolta. Jóhann Birnir lét reka sig út af á eftir um klukkutíma leik (í annað skiptið á ferlinum) og þá kom loksins spenna í leikinn. Lasse átti nokkrar flottar vörslur og var í feiknaformi. FH skoraði svo á 72. mínútu og þar var Atli Guðnason á ferðinni. FH sótti mikið það sem eftir lifði leiks en allt kom fyrir ekki og öruggur Keflavíkursigur í höfn.
Keflavík er því komið áfram í undanúrslitin ásamt Breiðablik og Fram. Valur og KR mætast svo á sunnudaginn.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Alen Sutej (Brynjar Örn Guðmundsson 80.), Magnús S. Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson (Magnús Þór Magnússon 89.), Jón Gunnar Eysteinsson, Jóhann B. Guðmundsson, Símun Samuelsen og Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bessi Víðisson, Magnús Þórir Matthíasson, Þorsteinn Atli Georgsson og Stefán Örn Arnarson.
Dómari: Garðar Örn Hinriksson.
Áhorfendur: 1135.
Kristján Guðmundsson þjálfari, Símun Sam og Halli Gumm voru í viðtali á fótbolti.net og við birtum þau með þeirra leyfi:
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var mjög ánægður í leikslok eftir að Keflvíkingar unnu FH 3 -1 í Keflavík í kvöld.
,,Það eru tvö þrjú lið að gera tilkall til þess að standa í hárinu á FH og við erum að reyna að vera eitt af þeim liðum" sagði Kristján þegar fréttaritari fótbolta.net spurði hann hvort að tvö bestu lið landsins hafi mæst í Keflavík í kvöld.
,,Þetta var virkilega flottur og góður sigur. Við spiluðum mjög vel allan tímann sem við erum jafnmargir inni á vellinum og náum að komast í 3 - 0 á þeim tíma, síðan þegar við erum einum færri að þá fáum við ekki á okkur nema eitt mark. Þótt að stundum hafi náttúrulega munað litlu að þá er það bara eðlilegt á móti jafngóðu liði og FH. Þannig að það er frábært að vinna þá, algjörlega ólýsanleg tilfinning"
Þið missið Jóhann Birnir útaf fyrir brot sem virtist eiginlega ekki vera brot.
,,Hann er að hlaupa í áttina að FH-ingnum sem ég sá ekki hver var sem breytir síðan um leikátt og Jóhann rennur til og rennur á hann. En það getur vel verið að útfrá sjónarhorni dómarans að þá líti þetta út sem tækling. En Jóhann var ekki að reyna að meiða hann eða eitt eða neitt slíkt. En útfrá sjónarhorni dómarans að þá lítur þetta út sem hættuleg tækling og þá verður hann að gefa spjald."
Þú sagðir í dag að bikarinn væri eini raunhæfi möguleikinn á titli. En þið sýnið það í dag að ef FH misstígur sig að þá gætuð þið ná góðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn.
,,Nú erum við bara komnir í undanúrslit í bikarnum og ekkert neitt lengra en það og eigum eftir 8 leiki í deildinni þannig að það er bara einn leikur í einu. Við segjum bara eins og FH, við sjáum hverjir eru með flest stig í lokin og ef það eru þeir að þá eru þeir bestir en ef það eru einhverjir aðrir sem eru með flest stig að þá eru þeir bestir."
Þið hafið fengið mikinn liðstyrk síðustu daga, Guðmund Steinarsson og Harald Frey. Það hlýtur að vera góð tilfinning.
,,Það er mjög góð tilfinning já. Það verða allir öruggari sem eru inni á vellinum og í þessu liði þekkja allir sitt hlutverk. Við erum með fjóra menn meidda þannig að það veitir ekkert af að hafa stóra og sterka menn til að koma inn í staðinn"
Símun Samuelsen átti virkilega góðan leik i dag.
,,Símun hefur verið með mikinn stíganda í sínum leik og í dag að þá toppaði hann það. Nú komu mörkin sem við höfum verið að bíða eftir. Þetta eru fyrstu mörkin hans í sumar sem er ekki algengt með hann, hann hefur yfirleitt skorað snemma í mótunum og hefur sett þau inn jafnt og þétt en nú komu þau í einni gusu. En hann var alveg stórkostlegur í kvöld.
Og við vorum vel studdir af áhorfendum. Ég þakka þeim kærlega fyrir að mæta og vera ekki roknir útá land eða útí eyjar eða hvað sem er, en studdu okkur og það var frábært að sjá hvað það voru margir mættir "
Símun Samuelsen var að öðrum mönnum ólöstuðum langbesti maður vallarins í kvöld þegar Keflavík vann FH í 8 liða úrslitum Visa bikarsins.
,,Við sýnum það í dag að FH er ekki ósigrandi og þeir eru ekki búnir að sigra okkur í þremur leikjum í röð," sagði Símun við Fótbolta.net eftir leik.
,,Ég held að í dag höfum við verið miklu betri. Þeir vildu meina það að þeir hafi verið betri í leikjunum sem við unnum og gerðum jafntefli við þá ( í deildinni ) en í dag sýndum við að við vorum miklu betra lið."
Símún átti virkilega flottan leik í dag og skoraði tvö mörk og eitt mark sem skrifast sem sjálfsmark.
,,Ég tek þetta þriðja líka. Þetta var fínn leikur og skemmtilegt að spila í dag og við vorum vel spilandi og alltaf hættulegir þegar við vorum í sókn."
Haraldur Freyr Guðmundsson spilaði sinn fyrsta leik í Keflavíkurtreyjunni í 5 ár í kvöld þegar Keflavík unnu FH í 8 liða úrslitum í Visa bikarnum. Haraldur gekk aftur til liðs við Keflavík í vikunni eftir að hafa verið í atvinnumennsku erlendis.
,,Það er gaman að vera kominn í búninginn aftur og ekki hægt að byrja betur en að vinna á heimavelli á móti besta liði landsins," sagði Haraldur við Fótbolta.net eftir leikinn.
Þið hljótið nú að sanna eitthvað með þessum sigri í kvöld?
,,Jújú við erum eina liðið sem höfum unnið þá í sumar. Ég verð samt að taka hattinn ofan fyrir FH. Þeir spila skemmtilegan fótbolta og eru mjög gott fótboltalið."
Það sáu það allir sem sáu leikinn í kvöld að við vorum í vörn meira og minna eftir að við missum mann útaf sem gerði þetta ennþá erfiðara og þeir spiluðu mjög vel en við vörðumst mjög vel og skorum þrjú góð mörk."
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga sagði fyrir leikinn í dag að bikarinn væri eini raunhæfi möguleikinn á titli fyrir Keflvíkinga og Haraldur tekur undir það.
,,Eins og staðan er í dag í deildinni að þá er FH í rauninni búnir að klára það. Það gefur augaleið að þetta er eina leiðin til þess að ná titli."
Baráttan á algleymingi; Magnús, Guðjón og Atli.