Fréttir

Knattspyrna | 30. júlí 2003

Frábær sigur hjá 4. flokki í Eyjum

Hann var nokkuð furðulegur A-liðs leikurinn hjá 4. flokki gegn ÍBV sem fram fór á Týsvellinum í gær, þriðjudag. Keflvíkingar spiluðu stórvel í fyrri hálfleik, sköpuðu sér fjölda dauðafæra en áttu erfitt uppdráttar fyrir framan markið auk þess sem markvörður ÍBV átti mjög góðan leik.  Það var því gegn gangi leiksins að ÍBV komst í 1 - 0.  Einar Orri Einarsson átti svo sannkallaðan þrumufleyg í slánna og niður/inn......línuvörðurinn veifaði, en eftir fundarhöld með dómara leiksins var markið af okkur tekið! Í hálfleik stóðu leikar því 1 - 0.  Keflavík hélt áfram látlausri sókn í seinni hálfleik en án árangurs. Eyjapiltar náðu svo að setja annað mark úr einni af skyndisóknum sínum, staðan því 2 - 0 og útlitið nokkuð svart!  En þeir eru þekktir fyrir allt annað en uppgjöf piltarnir úr Keflavíkinni og höfðu þar félaga Michael Jordan sér til fyrirmyndar!  Þegar 15 mín. voru til leiksloka var ísinn LOKSINS brotinn með marki frá Björgvini Magnússyni, 1 - 2.  Nú var ekki aftur snúið og allar gáttir opnuðust, nýting færanna varð eðlileg og mörkin létu ekki á sér standa.  Þegar upp var staðið sigruðu Keflavíkur-hetjurnar 2 - 6!  Mörkin gerðu Björgvin Magnússon 2, Helgi Eggertsson 2, Björn Geir Másson og Einar Orri Einarsson.  Piltarnir sýndu gríðarlegan karakter með því að gefast aldrei upp og ber þeim gott merki.  Með þessum sigri situr Keflavík sem fastast á toppi B-riðils.  Aðeins eru tveir leikir eftir, gegn Haukum og Selfossi, vinnist þeir er sæti í úrslitakeppninni tryggt.  Allt liðið á hrós skilið fyrir góðan leik.

Maður leiksins: Björgvin Magnússon, spilaði mjög vel ásamt því að skora 2 mörk.

B-liðið lenti í svipuðum málum og A-liðið upp við mark andstæðinganna.  Þeir áttu í mestu vandræðum með að koma tuðrunni í netið.  ÍBV komst í 1 - 0 en Keflavík jafnaði með sjálfsmarki sem kom eftir góða rispu frá Ingimari Rafni Ómarssyni.  Eyjapiltar komust aftur yfir 2 -1 en Fannar Þór Sævarsson jafnaði enn fyrir Keflavík.  Það var svo um 10 mínútum fyrir leikslok sem Eyjamenn skoruðu sigurmark leiksins 3 - 2.  Þrátt fyrir nokkrar góðar marktilraunir Keflavíkurpilta á lokakafla leiksins vildi knötturinn ekki inn og þar við sat.

Maður leiksins: Eiríkur Örn Jónsson, stóð sig feykivel í vörn liðsins.