Frábær sigur hjá stelpunum gegn Augnablik
Stelpurnar okkar spiluðu gegn Augnablik í Lengjubikarnum á mánudagskvöld í Reykjaneshöll. Um hörkuleik var að ræða hjá tveimur góðum liðum. Lið Augnabliks er einskonar varalið Breiðabliks, í liðinu eru m.a. nokkrar stelpur sem spila með yngri landsliðum Íslands og stelpur sem eru að banka á dyrnar hjá aðalliði Íslandsmeistara Breiðabliks.
Leikurinn fór fjörlega af stað og voru Kópavogsstúlkurnar meira með boltann, án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Það var því örlítið gegn gangi leiksins að Keflavík tók forystu, Anita Lind Daníelsdóttir átti frábæra hornspyrnu sem hafði viðkomu í höfði einnar Kópavogsstúlku og í netið, 1-0 fyrir Keflavík á 28. mínútu. Augnablik jafnaði svo leikinn með síðustu spyrnu hálfleiksins, 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var nokkuð jafn framan af en Augnabliksstúlkurnar voru þó ívið sterkari og komust í forystu á 56. mínútu. Það var svo á 67. mínútu sem leikur Keflavíkurstúlkna gjörbreyttist, þá var Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir færð úr vinstri bakverði á hægri kant og þar átti hún stórleik. Arndís spólaði sig framhjá varnarmönnum Augnabliks trekk í trekk og á 77. mínútu átti hún frábæra fyrirgjöf á Sveindísi Jane sem skoraði með góðu skoti úr markteignum. Arndís skoraði svo sjálf á 83. mínútu eftir góða stungusendingu frá Sveindís Jane og kom Keflavík í 3-2 forystu. Það var svo Anita Lind Daníelsdóttir sem átti lokaorðið á 88. mínútu með góðu og hnitmiðuðu skoti frá endalínu. Lokatölur því 4-2 fyrir Keflavík í stórskemmtilegum leik.
Stelpurnar sýndu gríðarlegan karakter á lokamínútunum og unnu svo sannarlega fyrir stigunum þremur. Liðið er nú í 2. sæti riðilsins og eiga stelpurnar einn leik eftir gegn toppliði ÍR. Leikurinn fer fram í Reykjaneshöll mánudaginn 25. apríl.
Byrjunarliðið gegn Augnablik.
Efri röð frá vinstri: Sveindís Jane, Ljiridona, Una Margrét, Þóra Kristín, Brynja, Kristrún Ýr.
Neðri röð frá vinstri: Eva Lind, Birgitta, Auður Erla, Anita Lind, Arndís Snjólaug.
Markaskorararnir gegn Augnablik.
Sveindís Jane, Anita Lind og Arndís Snjólaug.