Frábær sigur í alvöru bikarleik
Keflavík er komið í undanúrslit VISA-bikarsins eftir 4-3 útisigur á ÍA í frábærum bikarleik. Hér á eftir fylgir umfjöllun um leikinn af Fótbolti.net sem birt er óbreytt með leyfi þeirra. Við komum svo fljótlega með myndasyrpu úr leiknum, þar á meðal af öllum mörkum okkar manna.
ÍA 3 – 4 Keflavík
0-1 Þórarinn Brynjar Kristjánsson (18)
1-1 Arnar Bergmann Gunnlaugsson (36)
1-2 Guðmundur Steinarsson (48)
2-2 Arnar Bergmann Gunnlaugsson (60)
2-3 Guðmundur Steinarsson (75)
2-4 Símun Samuelsen (82)
3-4 Jón Vilhelm Ákason (88)
Keflvíkingar komust í kvöld í undanúrslit VISA-bikars karla með 4-3 útisigri á Skagamönnum í frábærum leik sem bauð upp á sjö mörk og spennu undir lokin.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar á Akranesi voru hreint út sagt frábærar, völlurinn var í mjög flottu standi, sólin skein á áhorfendur sem flestir voru í grasbrekkunni og þá var logn á vellinum. Bæði lið byrjuðu af krafti á upphafsmínútunum og á þriðju mínútu komst Þórður Guðjónsson í ágætis færi en skot hans fór í slána.
Þetta gaf tóninn fyrir leikinn enda gátu áhorfendur búist við mörgum mörkum miðað við það að Keflavík hafði fyrir þennan leik skorað tólf mörk í síðustu þremur deildarleikjum og þá höfðu Skagamenn skorað átta mörk í þremur leikjum síðan tvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir tóku við liðinu.
Skagamenn gerðu eina breytingu á byrjunarliðinu frá því í leiknum gegn KR auk stöðubreytinga inni á vellinum en hjá Keflavík kom Þórarinn Brynjar Kristjánsson inn í fremstu víglínuna fyrir Stefán Örn Arnarson og sá fyrrnefndi nýttu tækifærið vel með því að koma Keflvíkingum yfir á 18.mínútu. Hann fékk þá boltann vel fyrir utan vítateigsbogann og skoraði með hörkuskoti. Strax í næstu sókn munaði síðan litlu að Keflvíkingar kæmust tveimur mörkum yfir þegar að Baldur Sigurðsson fékk boltann á lofti við vítapunktinn en Bjarki Freyr Guðmundsson varði fast skot hans í horn.
Á 36.mínútu náðu Skagamenn að jafna. Arnar tók á móti langri sendingu frá Hafþór Ægi Vilhjálmssyni utarlega í teignum hægra megin og sá fyrrnefndi lyfti boltanum snyrtilega yfir Ómar Jóhannsson og í fjærhornið. Bjarki bróðir Arnars skallaði reyndar boltann en hann var kominn inn fyrir línuna og markið skráist á Arnar. Strax í næstu sókn komust Skagamenn síðan nálægt því að bæta við marki en Ómar bjargaði í horn.
Skagamenn voru sterkari á þessum kafla og Þórður Guðjónsson stakk boltanum inn á Bjarka sem var sloppinn í gegn en Guðjón Árni Antoníusson náði að hlaupa hann uppi og bjarga með tæklingu á síðustu stundu. Staðan var 1-1 í leikhléi en það er ekki hægt að segja annað en að síðari hálfleikurinn hafi byrjað af krafti því Einar Örn Daníelsson dómari dæmdi vítaspyrnu strax á upphafsmínútu hálfleiksins.
Igor Pesic sparkaði klaufalega í andlitið á Guðjóni og dæmd var vítaspyrna sem Guðmundur Steinarsson fyrirliði Keflvíkinga skoraði úr. Bjarki fékk gott færi á 57.mínútu en skot hans fór rétt framhjá. Bæði lið gerðu breytingu á liði sínu á 58.mínútu og breytingin hjá Skagamönnum var ekki lengi að skila sér. Dean Martin sem kom inn á hægri kantinn lék þá á Hallgrím Jónasson og átti frábæra sendingu á fjærstöngina þar sem Arnar kom og skallaði í netið.
Fjörið hélt áfram og á 67.mínútu átti Jónas Guðni Sævarsson hörkuskot fyrir utan teig sem endaði í stönginni. Þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka átti Hafþór Ægir skalla af markteig sem Ómar í markinu náði að slá út á síðustu stundu. Strax í næstu sókn skoraði Stefán Örn Arnarson laglegt mark sem var dæmt af vegna rangstöðu.
Skagamenn höfðu sótt meira en Keflvíkingar komust yfir í þriðja skiptið í leiknum þegar að Hólmar Örn laumaði boltanum inn á Guðmund sem skoraði með skoti framhjá Bjarka í markinu en Heimir Einarsson var ekki langt frá því að ná að bjarga á síðustu stundu.
Keflvíkingar komust svo í 4-2 þegar um tíu mínútur voru eftir. Símun Samuelsen var þá út við vítateigslínuna hægra megin og hann vippaði boltanum smekklega yfir Bjarka í markinu og í fjærhornið. Símun fagnaði markinu vel og hljóp til stuðningsmanna Keflvíkinga sem létu vel í sér heyra í leiknum sem og stuðningsmenn Skagamenn.
Á 88.mínútu minnkuðu Skagamenn muninn þegar að varamaðurinn Jón Vilhelm Ákason skoraði. Hann fékk þá boltann í vítateigsboganum eftir að Guðmundur Viðar Mete skallaði boltann burt og Jón var ekki að hika heldur skaut viðstöðulausu skoti niður í bláhornið.
Skagamenn komust síðan mjög nálægt því að jafna eftir hornspyrnu í næstu sókn. Hjörtur Hjartarson átti þá skot sem Guðjón Árni sparkaði burt við marklínuna og vildu Skagamenn meina að boltinn hefði farið inn en línuverðir og dómarar voru ekki á sama máli. Bjarki Freyr markvörður ÍA fór fram í þessari hornspyrnu og hann gerði slíkt hið sama í næstu sóknum ÍA og spilaði hann nánast sem framherji síðustu mínúturnar en það dugði ekki fyrir Skagamenn og lokatölur 4-3 fyrir Keflavík í frábærum leik.
Keflvíkingar geta verið ánægðir með að skora fjögur mörk á útivelli gegn ÍA og fara með sigur af hólmi en Skagamenn sitja eftir með sárt ennið og eru úr leik þrátt fyrir að hafa verið síst slakari aðilinn í leiknum.
ÍA (4-4-2): Bjarki Freyr Guðmundsson, Árni Thor Guðmundsson, Bjarni Eggerts Guðjónsson, Heimir Einarsson, Pálmi Haraldsson, Ellert Jón Björnsson (Dean Martin 58), Þórður Guðjónsson, Igor Pesic, Hafþór Ægir Vilhjálmsson, Bjarki Bergmann Gunnlaugsson (Jón Vilhelm Ákason 63), Arnar Bergmann Gunnlaugsson (Hjörtur Júlíusson Hjartarson 78).
Ónotaðir varamenn: Páll Gísli Jónsson (M), Guðjón Heiðar Sveinsson, Andri Júlíusson, Kári Steinn Reynisson.
Keflavík, 4-3-3: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antóníusson (Þorsteinn Atli Georgsson 93), Kenneth Ingemar Gustavsson, Guðmundur Viðar Mete, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Baldur Sigurðsson (Branislav Milicevic 78), Símun Samuelsen, Guðmundur Steinarsson, Þórarinn Brynjar Kristjánsson (Stefán Örn Arnarson 58).
Ónotaðir varamenn: Magnús Þormar, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Viktor Guðnason.
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir
Guðmundi fagnað eftir að hann kom Keflavík í 3-2.
Strákarnir þakka fjölmörgum stuðningsmönnum fyrir frábæran stuðning.