Fréttir

Knattspyrna | 12. maí 2010

Frábær sigur í Kópavoginum

Keflvíkingar gerðu góða ferð í Kópavoginn í gærkvöldi og sigruðu Breiðablik 0-1 með frábæru skallamarki frá Alen Sutej á 35. mínútu.

Leikurinn byrjaði rólega og það tók leikmenn smátíma að átta sig á aðstæðum og andstæðingnum.  Magnús Þórir átti að gera betur þegar hann fékk boltann inn fyrir vörn Blika en missti boltann of langt frá sér.  Markið kom svo á 35. mínútu þegar Alen Sutej skoraði með skalla eftir frábæra sendingu frá Guðmundi Steinarssyni.  Blikar voru þó ávallt hættulegir en Ómar Jóhannsson stóð vaktina vel í markinu. Sanngjörn staða í hálfleik 0-1.

Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og liðið stjórnaði leiknum vel.  Hörður fékk gott færi, Jóhann Birnir komst í dauðafæri sem Ingvar Kale markvörður Blika varði glæsilega og Alen átti tvo góða skalla sem var bjargað á síðustu stundu.  Blikar áttu eitt færi en Ómar varði skalla af stuttu færi.

Keflavík vann sanngjarnan sigur og liðið stóð sig virkilega vel, allir sem einn.  Hvað er annað hægt þegar við fáum svona stuðning eins og liðið fékk í gærkvöldi frá frábærum stuðningsmönnum okkar sem sungu og trölluðu allan leikinn.  Við þökkum fyrir það.

  • Sigurinn gegn Blikum var fyrsti útisigur Keflavíkur í deildinni síðan 13. september 2008.  Þá vann liðið Fjölni 2-1 en hafði síðan leikið 12 útileiki í röð án sigurs en liðið náði ekki að sigra útileik í deildinni í fyrra.
     
  • Paul McShane og Ómar Karl Sigurðsson léku sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild.  Ómar kom inn á sem varamaður undir lok leiksins og lék sinn fyrsta leik í efstu deild.
      
  • Alen Sutej skoraði sitt þriðja mark í efstu deild.  Kappinn skoraði tvö mörk á síðustu leiktíð, gegn KR og ÍBV.  Ekki þarf að koma á óvart að mörkin þrjú hafa öll verið skoruð með skalla.
      
  • Guðmundur Steinarsson lék sinn 181. leik fyrir Keflavík og er þar með orðinn næstleikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi.  Hann er kominn upp fyrir Þorstein Bjarnason sem lék á sínum tíma 180 leiki en Sigurður Björgvinsson er efstur með 214 leiki fyrir Keflavík í efstu deild.

Fótbolti.net
Þegar 36 mínútur voru liðnar kom fyrsta mark leiksins eftir sofandagang í vörn Blika. Keflvíkingar fengu þá hornspyrnu sem var tekin stutt en enginn varnarmaður hafði vit á því að fara á móti Guðmundi Steinarssyni sem fékk boltann og kom með fína fyrirgjöf inn í teig. Þar var Alen Sutej mættur á fjarstöng og stangaði hann knöttinn í netið og staðan orðin 1-0 fyrir Keflvíkingum.

Margt jákvætt var að finna í leik Keflvíkinga. Alen Sutej var mjög sterkur og Jóhann Birnir hafði nokkur tækifæri til að skora. Almennt var liðið þokkalega vel spilandi og virðist Willum Þór Þórsson þjálfari hafa unnið gott starf á undirbúningstímabilinu.

Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar byrja vel undir stjórn Willums Þórs Þórssonar en þeir unnu sanngjarnan 1-0 sigur á bikarmeisturum Blika á Kópavogsvellinum í gærkvöldi. Vinstri bakvörðurinn Alen Sutej var einn hættulegasti sóknarmaður leiksins og skoraði sigurmarkið. Markið hans kom í annars jöfnum fyrri hálfleik en í þeim síðari voru gestirnir úr Keflavík miklu hættulegri og sigurinn var því sanngjarn. Það má segja að áhrif Willums séu strax sjáanleg á Keflavíkurliðinu.
Ómar 6, Guðjón 6, Alen 8, Bjarni 6, Haraldur 6, Magnús Sverrir 6, Paul 8 (Brynjar -), Hólmar Örn 6, Magnús Þórir 7 (Ómar Karl -), Guðmundur 6 (Jóhann Birnir 6), Hörður 4.

Morgunblaðið / Mbl.is
Undir stjórn nýs þjálfara, Willums Þór Þórssonar, er óhætt að fullyrða að lið Keflavíkur fari vel af stað og lofi hreinlega mjög góðu sé tekið mið af þessum eina leik og hann borinn saman við leiki liðsins á síðustu leiktíð. Mikið og gott skipulag er komið á leik liðsins, e.t.v. á kostnað ákveðins léttleika í spilinu sem var undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar. Varnarleikurinn er mjög traustur og Ómar Jóhannsson sömuleiðis í markinu. Það var ekki nema rétt undir lokin sem hann lenti í vandræðum í einu úthlaupi.
M: Ómar, Guðjón, Alen, Haraldur, Paul, Magnús Þórir.


Pepsi-deild karla, Kópavogsvöllur, 11. maí 2010
Breiðablik 0
Keflavík 1
(Alen Sutej 35.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Paul McShane (Brynjar Örn Guðmundsson 85.), Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson (Ómar Karl Sigurðsson 90.), Guðmundur Steinarsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 46.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic, Sigurður Gunnar Sævarsson.
Gul spjöld: Haraldur Freyr Guðmundsson (14.), Magnús Þórir Matthíasson (86.). 

Dómari: Þorvaldur Árnason.
Aðstoðardómarar: Oddbergur Eiríksson og Smári Stefánsson.
Eftirlitsdómari: Jón Sigurjónsson.
Áhorfendur: 1680.


Myndir: Jón Örvar Arason