Frábærir sigrar gegn Stjörnunni
Keflavík og Stjarnan áttust við í 4. flokki karla í gær og var búist við hörkuleik, enda telja flestir að Stjarnan hafi á að skipa besta liðinu í þessum riðli. Fyrir þennan leik höfðu þeir leikið 4 leiki og unnið þá alla auðveldlega með markatöluna 28-1. Þessi sömu lið áttust við í Faxaflóamótinu í vor og þá sigraði Stjarnan auðveldlega 7-1. Þrátt fyrir að tölfræðin hafi verið Keflavík óhagstæð létu þeir það ekkert á sig fá og mættu gríðavel stemmdir til leiks. Keflavík sóttu stíft í fyrri hálfleik og voru mun betri aðilinn, en Stjarnan varðist vel og áttu líka nokkrar góðar sóknir. Þrátt fyrir að ná að skapa sér fjölda færa tókst Keflvíkingum ekki að setja boltann í netið og staðan var 0-0 í hálfleik. Mun meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik og sóttu liðin stíft á báða bóga. Eina mark leiksins kom 6 mínútum fyrir leikslok og var það af ódýrari gerðinni. Björgvin Magnússon átti fyrirgjöf fyrir markið og markmaður Stjörnunnar fór út í sendinguna en misreiknaði sig illa og missti af boltanum. Viktor Guðnason var fljótastur að átta sig, náði boltanum og sendi hann í autt markið; 1-0 og þannig lauk leiknum. Þessi úrslit þýða það að Keflavík er efst í riðlinum með 14 stig eftir 6 leiki og markatöluna 23-6.Maður leiksins: Ekki er hægt að taka einn leikmann út úr þessu liði, allir leikmennirnir sem komu við sögu í leiknum eru menn leiksins.
Hjá B-liðunum unnu Keflvíkingar auðveldan sigur á Stjörnunni, 6-1. Ómar Hjaltason skoraði tvö fyrstu mörk Keflvíkinga og Davíð Þorsteinsson bætti því þriðja við áður en flautað var til hálfleiks. Fljótlega í síðari hálfleik minnkuðu Stjörnumenn muninn í 3-1. Þá kom að þætti Péturs Elíassonar. Pétur, sem er markmaður liðsins og stóð í markinu í fyrri hálfleik, var settur í framlínuna í síðari hálfleik og sýndi það að hann kann ýmislegt fyrir sér og skoraði hvorki meira né minna en 3 mörk. Lokatölurnar því 6-1 fyrir Keflavík. Keflvíkingarnir voru mun sterkari en Stjörnustrákar í þessum leik eins og úrslitin gefa til kynna, þeir komu ákveðnir til leiks og voru mun betri aðilinn allan leikinn.
Maður leiksins: Pétur Elíasson.