Frækinn Evrópusigur
Keflavík vann frækinn sigur á danska liðinu FC Midtjylland í Evrópukeppni félagsliða á Keflavíkurvelli. Lokatölur urðu 3-2 eftir að Danirnir höfðu komist í 0-2 snemma leiks. Keflavíkurliðið byrjaði leikinn fullvarlega og gestirnir gengu á lagið. Eftir um tíu mínútna leik skoraði Sergey Dadu glæsilegt mark með skoti beint úr aukaspyrnu. Tíu mínútum síðar var staðan orðin 0-2 og útlitið ekki gott. Hægri bakvörðurinn Kolja Afriyie æddi þá upp allan völlinn, inn í teig og skoraði með föstu skoti. Vel gert en Keflavíkurliðið var ekki vel á verði í þetta skiptið. Þegar þarna var komið tóku strákarnir loksins við sér og fóru að láta gestina hafa fyrir hlutunum. Á 27. mínútu var dæmd vítaspyrna þegar Hallgrímur var togaður niður í teignum. Markvörðurinn varði spyrnu Guðmundar Steinars sem fylgdi hins vegar vel á eftir og kom boltanum í netið. Skömmu síðar var staðan svo orðin jöfn þegar Símun brunaði upp kantinn og gaf vel fyrir á Þórarinn sem náði að smeygja sér fram fyrir varnarmann og stýra boltanum í markið. Reyndar mátti ekki á milli sjá hvort það var Þórarinn eða danski varnarmaðurinn sem kom síðast við boltann.
Í upphafi seinni hálfleik var jafnræði með liðunum en úrslitin réðust á 57. mínútu þegar Símun fékk boltann á kantinum, óð inn á miðjuna og lét vaða á markið. Boltinn endaði efst í bláhorninu og allt varð vitlaust á vellinum. Það sem eftir lifði leiks pressuðu gestirnir og sköpuðu sér nokkur færi en tókst ekki að jafna. Litlu munaði að Þórarinn bætti fjórða markinu við þegar hann átti hörkuskot neðst í hornið eftir frábæra sókn en markmaðurinn varði glæsilega. Frábær sigur í höfn og liðið sýndi svo sannarlega ótrúlega þrautseigju með því að sigra eftir að hafa lent tveimur mörkum undir strax í upphafi. Ljóst er að seinni leikurinn verður erfiður en okkar menn geta verið stoltir af sinni frammistöðu.
Morgunblaðið
Keflvíkingar unnu einhvern besta sigur íslensks karlaliðs í Evrópukeppni félagsliða í mörg ár þegar þeir skelltu danska liðinu FC Midtjylland í Keflavík í gærkvöldi. Ekki nóg með það heldur upplifðu Suðurnesjamenn draum knattspyrnumannsins; lentu 0:2 undir og sigruðu 3:2. Engu að síður standa Danirnir ágætlega að vígi því síðari leikurinn er eftir á þeirra heimavelli, og ljóst að Keflvíkingar þurfa að sýna álíka frammistöðu ytra til að halda áfram í UEFA-bikarnum.
Daninn Nicolai Jørgensen átti góðan leik í vörn Keflvíkinga gegn sínum gömlu félögum í FC Midtjylland. Hann lék með danska liðinu í fimm ár og vissi því við hverju mátti búast í leiknum: „Það var ekkert sem kom mér sérstaklega á óvart. Ég vissi að þeir myndu setja okkur undir pressu á fyrsta korterinu og það gekk eftir, en það var frábær frammistaða hjá okkur að snúa þessu við og vinna leikinn. Í raun alveg ótrúlegt,“ sagði Jørgensen að leiknum loknum.
Honum hefur væntanlega ekki leiðst það að leggja sína gömlu samherja að velli? „Ég fékk mikinn fiðring þegar ég sá dráttinn á heimasíðu UEFA. Og að sjálfsögðu fékk ég mikið út úr því að vinna leikinn. Það er gríðarlega spennandi fyrir mig að spila þessa leiki og ég hlakka mikið til síðari leiksins þótt hann verði enn erfiðari en þessi.“ Jørgensen er ekki í vafa um hvað varð til þess að leikurinn snerist jafnfljótt og raunin varð í stöðunni 2:0: „Það sást á Dönunum að þeir slökuðu á eftir annað markið. Þeir héldu greinilega að þetta yrði leikur einn. Og það eru að sjálfsögðu alltaf mistök að vanmeta andstæðinginn, alveg sama þótt hann komi úr veikari deild. Þeir vanmátu okkur alveg klárlega þó svo að þeir hafi ekki endilega talað þannig. En vitneskjan um að þú sért að mæta liði sem er metið slakara, er alltaf til staðar í undirmeðvitundinni,“ sagði Jørgensen, sem gaf ekki mikið fyrir að Danirnir væru líkamlega sterkari því Keflavík ætti einnig burðuga menn.
Fréttablaðið
„Þetta er eitt af þeim flottustu. Kannski kemst þetta mark á topp tvö hjá mér,“ sagði Símun Samuelsen kátur eftir leikinn. „Það skemmtilegasta við þetta mark var samt að það tryggði okkur sigurinn í leiknum. Þetta leit mjög illa út en það var ótrúlegur karakter sem allir menn sýndu í leiknum. Þetta er okkar besti leikur í sumar fyrir utan þessar skelfilegu mínútur í byrjun og örugglega besti leikur Keflavíkur í mörg ár,“ sagði Símun.
Víkurfréttir
Silfurlið Midtjylland í dönsku deildinni hóf síðari hálfleik af krafti og ætluðu sér augljóslega að setja mark snemma á Keflavík en raunin varð reyndar allt önnur. Á 57. mínútu fékk Guðmundur Steinarsson boltann á miðjum leikvellinum, sendi hann út á vinstri kant á Símun sem lék inn að miðjunni, fór fram hjá tveimur varnarmönnu og skaut að marki um leið og þriðji varnarmaðurinn kom í hann. Boltinn sveif í föstum og glæsilegum boga upp í hægra hornið og staðan orðin 3-2 Keflavík í vil.
Gestirnir reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin og fær varnarlína Keflavíkur stóra rós í hnappagatið fyrir að standast áhlaupið og voru þeir félagarnir Guðmundur Mete og Nicolai Jörgensen einbeittir og stjórnuðu varnarleiknum af mikilli röggsemi.
Mikil fagnaðarlæti brutust síðan út á Keflavíkurvelli þegar dómari leiksins flautaði til leiksloka og sást það langar leiðir að varnarmaðurinn Nicolai Jörgensen réð sér ekki af kæti enda nýbúinn að fagna sigri gegn sínu gamla félagi. Hann var í 5 ár á mála hjá Midtjylland og sýndi gömlu félögum sínum í kvöld að hugsanlega hafi það verið reginmistök að láta hann frá félaginu.
Fótbolti.net
Keflavík gerði sér lítið fyrir og lagði danska félagið FC Midtjylland 3-2 á Keflavíkurvelli í kvöld. Þjálfarinn Kristján Guðmundsson var að vonum ánægður með sína menn en sagði þetta ekki vera nein draumaúrslit.
,,Nei, draumaúrslit hefðu verið 7-0 sko, en að vera 2-0 undir eftir tuttugu mínútur og vinna leikinn, 3-2, það er stór sigur og þetta sýnir alveg frábæran karakter í liðinu,” sagði Kristján við Fótbolti.net eftir leikinn í kvöld.
„Við vissum að við þyrftum að lifa fyrstu tuttugu mínúturnar af en það tókst nú ekki alveg. Við vissum að við myndum fá færi gegn þessarri vörn af því að það eru veikleikar í henni og þegar okkur tókst loksins að fara á hana þá fengum við víti og mark.”
„Eigum við ekki að segja að við áttum það inni að eiga svona þrumumark,” sagði Kristján um sigurmark Símuns Samuelssonar en hann vissi þó að hans menn voru ekki aðeins óheppnir á fyrstu tuttugu mínútunum.
,,Við sýndum þeim of mikla virðingu í byrjun og vorum ekki nógu 'aggressive' í þá, þá fengum við á okkur tvö mörk. Um leið og þessi raunveruleiki blasti við leikmönnunum þá tóku þeir sig bara á! Það er bara gott.”
,,Á meðan staðan er þessi erum við áfram en það er náttúrulega en þetta er naumt. Á meðan það er möguleiki þá keyrum við bara á hann en það verður gríðarlega erfitt. Það er bara 0-0, þá erum við áfram,” sagði Kristján að lokum.
Gras.is
Guðmundur Steinarsson, leikmaður Keflavíkur átti fínan leik í kvöld og skoraði hann fyrsta mark Keflavíkurliðsins. Hann sagði að vissulega hefði komið upp vanmat hjá danska liðinu en á sama tíma hafi þeir rifið sig upp og gefið sig alla í þetta.
Það var svolítið fát á ykkur í byrjun?
Já ég held að við höfum borið of mikla virðingu fyrir þeim og þeir skora í fyrstu tveimur skotum sínum á markið hjá okkur. Þessi aukaspyra sem þeir skoruðu úr var mjög vel tekin. Seinna markið var ekkert hægt að gera við. En við komum með frábæra endurkomu.
Hvernig fórstu að klúra þessu víti, ertu ekki svo öruggur á punktinum?
Já en við töpum ekki leik þegar ég skora með hægri þannig að ég ákvað að taka hana með henni en ég náði að setja hann inn með skoti á eftir.
Hvað er það sem gerist þegar þið komið svo til baka?
Ég held að eftir að þeir komast í 2-0 þá kemur upp vanmat hjá þeim. Þeir minnka einbeitinguna hjá sér og á sama tíma þá gefum við í og okkur fer að líða betur með boltann. Ég held að það sé samblanda af þessu tvennu. Við gerðum það sem við ætlum að það var að sigra.
Hefðu ekki fleiri mátt sjá sig á vellinum í kvöld þegar svona lið er að mæta?
Jú það er alveg rétt og það er eins og ekki allir hafi haft trú á þessu verkefni hjá okkur. En sá stuðningur sem var vil ég þakka kærlega fyrir enda var hann alveg frábær.
Hvernig líst þér svo á framhaldið í þessu?
Það verður forvitnilegt þeir hljóta að koma alveg brjálaðir til leiks á sínum heimavelli. Þeir vilja ekki að þessi saga endurtaki sig enda væri það skandall fyrir þá og danska fótbolta að detta út fyrir íslensku liði. Við þurfum að taka allt það góða úr þessum leik og mæta þeim ákveðnir og sýna að við kunnum að spila fótbolta á útivelli líka.
Þessi sigur hlýtur að gefa ykkur byr undir bæða vængi fyrir mótið hér heima.
Já er alveg rétt og þetta sýnir okkur það að við getum spilað á þessu tempói í deildinni hér heima, ekki bara undir ákveðnum kringustæðum,” sagði Guðmundur Steinarsson í samtali við Gras.is.
Heimasíða FC Midtjylland
Leikmennirnir voru allir langt niðri eftir tapið og í búningsherberginu var greinilegt að menn vissu upp á sig sökina. Menn viðurkenndu að liðið lék undir getu og þegar þar við bætist að menn voru að leika við íslenskt lið þá geta menn verið ánægðir með að útkoman var ekki enn verri. Íslendingar gefast aldrei upp... það sá maður greinilega í dag. Íslendingarnir láta það ekki á sig fá að lenda 0-2 undir, þeir berjast áfram. Þetta er eins og ýta vörubíl upp brekku, ef þú slakar á rennur hann til baka og þú getur átt á hættu að vera keyrður niður. Við sluppum við það og það stefnir í spennandi leik á SAS Arena 2. ágúst þar sem þörf er á þéttum stuðningi áhorfenda til að tryggja áframhaldandi þátttöku í keppninni.
Mikkel Thygesen: Við sigrum þá á heimavelli, það er ekki spurning. Með Svörtu úlfana á bakinu munu þeir finna fyrir SAS Arena, fjandinn hafi það. Ég vona bara að fólk fjölmenni og styðji okkur. Við ætlum okkur áfram. (Lauslega þýtt úr dönsku).
ExtraBladet
Evrópuævintýri FC Midtjylland byrjaði óvænt illa þegar liðið tapaði útileiknum gegn Keflavík í UEFA-keppninni. Klúðrið var enn meira vegna þess að liðið var tveimur mörkum yfir eftir tuttugu mínútna leik og virtist eiga sigurinn vísan. Íslendingarnir treystu á sterkan varnarleik og langskot. Midtjylland var því mun meira með boltann en skapaði fá færi. (Lauslega þýtt úr dönsku).
Keflavíkurvöllur, Evrópukeppni félagsliða, 19. júlí 2007
Keflavík 3 (Guðmundur Steinarsson 27., Þórarinn Kristjánsson 35., Símun Samuelsen 57.)
FC Midtjylland 2 (Sergey Dadu 9., Kolja Afriyie 20.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Nicolai Jörgensen, Branko Milicevic - Marco Kotilainen, Baldur Sigurðsson, Hallgrímur Jónasson (Kenneth Gustavsson 68.), Símun Samuelsen - Þórarinn Kristjánsson (Einar Orri Einarsson 85.), Guðmundur Steinarsson (Jónas Guðni Sævarsson 68.)
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Garðar Eðvaldsson, Þorsteinn Georgsson, Sigurbjörn Hafþórsson.
Dómari: Carlo Bertolini.
Aðstoðardómarar: Antonio Luis Fernandez og Stefan Bühlmann.
Fjórði dómari: Daniel Wermelinger.
Eftirlitsmaður: Einar Halle.
Áhorfendur: 827.
Tóti skorar og jafnar leikinn eftir fyrirgjöf frá Símun.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)