Frændum vorum ekki skemmt
Frændur okkar Danir eru ekki ánægðir eftir leik Keflavíkur og FC Midtjylland í Evrópukeppninni í vikunni. Þarlendir fjölmiðlar sem fjalla um leikinn eru á því að danska liðið hafi farið illa að ráði sínu og frammistaða liðsins valdið miklum vonbrigðum.
Dagblaðið Herning FolkeBlad fjallar ítarlega um leikinn enda kemur það út í heimabæ FCM. Sagt er frá leiknum á forsíðu undir fyrirsögninni „Hrun í Keflavík“. Með fylgir svo mynd af dönskum leikmanni liggjandi á vellinum þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Blaðamaður blaðsins, Frits Nielsen, var í Keflavík og hann er ekki hrifinn af frammistöðu sinna manna og fjallar um hana með fyrirsögninni „Áhugamannaframmistaða“. Hann bendir á að Keflavík sé áhugamannalið og umhverfið og umgjörð leiksins hafi borið það með sér. FC Midtjylland gefi sig hins vegar út fyrir að vera alvöru atvinnumannalið og hafi m.a. leigt einkaþotu undir leikmenn sína svo þeir kæmu vel stemmdir í leikinn. Nielsen segir að liðið hafi aðeins spilað eins og atvinnumenn fyrstu tuttugu mínútur leiksins en þá hafi þeir talið að sigurinn væri í höfn. Leikmenn liðsins hafi einfaldlega ekki lagt sig nógu mikið fram og ekki tekið leikinn nógu alvarlega. Nielsen fjallar meira að segja um búningaval FC Midtjylland og bendir á að kannski hafi leikmennirnir ekki viljað skíta þessa fínu hvítu búninga út!
Í greininni kemur einnig fram að úrslitin séu áfall fyrir danska knattspyrnu. Það að tapa fyrir íslensku liði sýni að dönsk félagslið séu ekki sterk á evrópskan mælikvarða. Einnig hafi Danmörk tapað dýrmætum stigum sem miðað sé við þegar löndum er raðað í styrkleikaflokka í Evrópukeppnum félagsliða.
Í blaðinu er einnig spjallað við Nicolai sem segir að Danirnir hafi einfaldlega farið að slaka á þegar þeir voru komnir með tveggja marka forystu. Hann er auðvitað ánægður með sigurinn og frammistöðu Keflavíkurliðsins. Hann reiknar með því að fyrrum félagar sínir komi betur stemmdir til leiks í síðari leiknum og bendir á að annars eigi þeir ekki möguleika á að komast áfram í keppninni.
Tipsbladet tekur í sama streng og segir að FCM hafi byrjað frábærlega, komist tveimur mörkum yfir en þá hætt að spila fótbolta. Í greininni segir reyndar að 2-3 tap á útivelli sé kannski ekki svo slæmt en danskt lið eigi ekki að sætta sig við þannig úrslit gegn íslensku liði. Svipað er upp á teningnum hjá ExtraBladet sem bendir á að markvörðurinn Raska hafi síðan komið í veg fyrir að Keflavík skoraði fjórða markið undir lok leiksins. Hjá stórblaðinu B.T. eru menn reyndar eitthvað ruglaðir í ríminu því þar er sagt að Símun hafi skorað tvö mörk og Gunnar Kristinsson eitt! Vel gert hjá Símun og enn betra hjá Gunnari sem lék með Keflavík fyrir tveimur árum. Ekki er ástandið betra hjá netútgáfu Nyhedsavisen sem segir að leikurinn hafi farið fram í Reykjavík! Blaðið er reyndar í eigu Baugs sem er með höfuðstöðvar í höfuðborginni.
Nágrannar okkar í Færeyjum eru hins vegar ánægðir með frammistöðu og sigurmark síns manns. Vikublaðið segir frá leiknum með fyrirsögninni „Símun søkti FC Midtjylland“ og á vef útvarpsins er fréttin „Símun Samuelsen skoraði sigursmál ímóti FC Midtjylland“. Á hinum stórskemmtilega íþróttavef sportal.fo er eftirfarandi frásögn af leiknum og frammistöðu Símunar:
Símun vann á FC Midtjylland
Føroyski Símun Samuelsen skoraði í kvøld sigursmálið, tá ið felag hansara, Keflavík, knógvaði FC Midtjylland í UEFA Cup Keflavík og Símun Samuelsen vórðu sett á eina torføra uppgávu, tá ið teir í kvøld fingu vitjan av FC Midtjylland í UEFA Cup. Tað sá heldur ikki serliga gott út hjá Keflavík eftir 20 minuttum, tá ið teir longu vóru aftanfyri 0-2. Men íslendingarnir fingu bart seg upp á 2-2 sum hálvleiksleiðslu. Í seinna hálvleiki var tað sum so mangan føroyski Símun Samuelsen, ið avgjørdi dystin. Hetta gjørdi hann í 57. minutti, tá ið hann skoraði til endaliga úrslitið, og harvið tryggjaði Keflavík gott útgangsstøði til returdystin í Herning um tvær vikur.