Fram - Keflavík á sunnudag kl. 19:15
Þá er komið að næsta bikarleik en okkar lið mætir Fram í 8 liða úrslitum Borgunarbikarsins sunnudaginn 6. júlí. Leikurinn verður á Laugardalsvelli og hefst kl. 19:15. Keflavík hefur áður unnið Augnablik og Hamar í keppninni en Framarar komust í 8 liða úrslitin með 1-0 sigri á KA og síðan vann liðið KV 5-3. Dómari leiksins verður enginn annar en Kristinn Jakobsson, aðstoðardómarar þeir Sigurður Óli Þórleifsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson en eftirlitsmaður KSÍ er Sigurður Hannesson.
Keflavík og Fram hafa áður leikið 11 leiki í bikarkeppninni, fyrst árið 1962 og síðast árið 2004. Framarar hafa sigrað 7 sinnum en Keflavík 4 sinnum. Markatalan er 13-17 fyrir Fram. Liðin hafa fjórum sinnum áður mæst í 8 liða úrslitum og þar hafa liðin unnið tvo leiki hvort.
Úrslit leikja Fram og Keflavíkur í bikarkeppni KSÍ hafa orðið þessi:
2004 | 16 liða úrslit | Fram - Keflavík | 0-1 | Hólmar Örn Rúnarsson |
2002 | 8 liða úrslit | Fram - Keflavík | 3-1 | Adolf Sveinsson |
1997 | 16 liða úrslit | Keflavík - Fram | 1-0 | Gunnar Oddsson |
1989 | Undanúrslit | Keflavík - Fram | 3-4 |
Kristján Geirsson Valþór Sigþórsson Kjartan Einarsson |
1986 | Undanúrslit | Fram - Keflavík | 2-0 | |
1985 | Úrslit | Fram - Keflavík | 3-1 | Ragnar Margeirsson |
1982 | 8 liða úrslit | Keflavík - Fram | 3-1 |
Einar Ásbjörn Ólafsson Kristinn Jóhannsson Óli Þór Magnússon |
1981 | 8 liða úrslit | Fram - Keflavík | 1-0 | |
1973 | Úrslit | Fram - Keflavík | 2-1 | Steinar Jóhannsson |
1966 | 8 liða úrslit | Fram - Keflavík | 0-1 | Högni Gunnlaugsson |
1962 | Undanúrslit | Fram - Keflavík | 2-1 | Högni Gunnlaugsson |
Leikurinn
Að þessu sinni rifjum við upp síðasta bikarleik Fram og Keflavíkur en hann fór fram á Laugardalsvelli í júlí árið 2004. Keflavík vann þá 1-0 sigur í 16 liða úrslitum þar sem Hólmar Örn Rúnarsson gerði eina mark leiksins. Keflavíkurliðið fór svo alla leið en liðið varð einmitt bikarmeistari þetta ár. Að neðan má sjá umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn.
Smellið á fréttina fyrir neðan til að sjá stærri útgáfu.