Fram-Keflavík í bikarnum
Keflavík mætir Fram í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins í ár. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli mánudaginn 5. júlí kl. 19:15.
Það er athyglisvert að Keflavík dregst enn einu sinni gegn Frömurum í bikarkeppninni en Fram er einmitt það lið sem við höfum leikið langoftast gegn í bikarnum. Fyrsta skiptið var árið 1960 en það ár var einmitt fyrst leikið í bikarkeppninni, Fram vann þann leik 2-1. Síðast drógust þessi lið saman í bikarnum árið 2002 en þá sigruðu Framarar einnig, 3-1 í það skiptið. Alls hafa leiðin leikið 11 bikarleiki og hallar heldur á okkur í þeim viðskiptum en Fram hefur unnið 7 leiki en Keflavík 4 og markatalan er 13-17 fyrir Fram.
Liðin hafa tvisvar leikið í bikarúrslitum, fyrst árið 1973 þegar Keflavík lék fyrst í úrslitum bikarsins. Fram vann þann leik 2-1 en Steinar Jóhannsson skoraði mark Keflavíkur. Liðin léku svo aftur bikarúrslitaleik árið 1985 og þá vann Fram 3-1 en Ragnar heitinn Margeirsson skoraði okkar mark. Þess má geta að bæði skiptin sem Keflvíkingar hafa orðið bikarmeistarar, árin 1975 og 1997, hafa þeir slegið Framara úr keppninni og í bæði skiptin með 1-0 sigri.