Framlag sjálfboðaliða
Hlutur sjáfboðaliða er mikilvægur í öllu starfi íþróttafélaga og það á svo sannarlega við um Knattspyrnudeild Keflavíkur. Stór hópur fólks leggur þar hönd á plóginn enda er nánast öll vinna sem viðkemur starfsemi deildarinnar unnin í sjálfboðavinnu. Hluti þeirra starfa fer fram árið um kring en á sumrin fjölgar þeim sem koma að starfinu auðvitað og stór hluti vinnunnar fer fram í kringum heimaleiki liðsins, starfsemi yngri flokkar o.s.frv.
Einar Ólafur Karlsson er einn þeirra sem leggur fram hjálparhönd fyrir fótboltann. Hann tók að sér að þrífa alla stúkuna á Nettó-vellinum og hefur verið undanfarna daga að háþrýstiþvo hana fyrir átökin í sumar. Einar segir þó að hann verði ekki búinn að koma stúkunni í toppstand fyrr en líður á sumarið og biður áhorfendur að sýna biðlund og ganga vel um stúkuna.
Þeir sem vilja taka þátt í starfi Knattspyrnudeildarinnar eru hvattir til að hafa samband. Öll aðstoð er auðvitað vel þegin og margar hendur vinna létt verk. Það er því um að gera að vera með og taka að sér afmörkuð verkefni sem þurfa ekki að taka mikinn tíma.
Á myndinni má sjá Einar munda dæluna góðu.