Fréttir af 5. flokki
Í dag lauk 5. flokkur pilta þátttöku sinni í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Liðið lék gegn Fram nú síðdegis og tapaði báðum leikjunum. B-liðið lék fyrst og tapaði 0-3 gegn sterkum Frömurum. Þar með nægði Framliðinu jafntefli í leik A-liðanna. Þar var um hörkuleik að ræða en honum lauk með 3-2 sigri Fram. Sigurmarkið kom á lokaandartökum leiksins eftir að okkar strákar höfðu sótt af öllu afli til að reyna að knýja fram sigur og áframhaldandi þátttöku í keppninni. Það tókst því miður ekki þrátt fyrir góða frammistöðu og var heppnin ekki með strákunum að þessu sinni. Voru áhorfendur reyndar á því að liðið hefði staðið sig feykivel og átt skilið að komast áfram í keppninni. Hvorugt liðið hafi verðskuldað að falla úr keppni en að því er ekki spurt í knattspyrnunni. Það voru þeir Baldur Guðjónsson og Sigbergur Elísson sem skoruðu mörk A-liðsins.