Fréttir

Knattspyrna | 5. september 2006

Fréttir af meistaraflokki

Baldur Sigurðsson lék með U21 árs liði Íslands gegn Ítölum á Laugardalsvellinum sl. föstudag en sá leikur tapaðist 0-1 og Ísland er úr leik í undankeppni Evrópumótsins.  Baldur átti mjög góðan leik og var með betri mönnum á vellinum.  Það kemur í ljós í vikunni hverjir fara áfram úr riðlinum en Ítalía fær þá Austuríki í heimsókn.

  

Símun Samuelssen var með Færeyingum í Skotlandi þar sem þeir steinlágu 6-0 í undankeppni EM.  Símun kom inn á sem varamaður á 75. mínútu.  Færeyingar hafa byrjað illa í keppninni, tapað báðum leikjum sínum stórt og markatalan þeirra er 0-12.

Viktor Guðnason, sá efnilegi leikmaður Keflavíkur, fótbrotnaði um daginn og verður frá keppni í nokkra mánuði.  Viktor er einn besti leikmaður 2. flokks og hefur verið á varamannabekk meistaraflokks í mörgum leikjum og hefur verið við það að komast inn.  Ekki verður það á þessu tímabili því miður en við hlökkum til að sjá hann á því næsta.  Við óskum Viktori góðs bata.

Kristján Guðmundsson, okkar geðþekki þjálfari, liggur undir feldi þessa dagana og reynir að finna (sigur) formúlu að liði gegn Fylki á sunnudaginn.  Það vantar þrjá af okkar bestu mönnum í þennan leik, Baldur og Símun eru í banni og Hólmar Örn er farinn til Danmerkur.  Ef einhverjum er treystandi í þetta verkefni þá er það honum Kristjáni og hann á eftir að stilla upp góðu liði gegn Fylki.  A.m.k. byrjum við ellefu inn á... það er öruggt.  Annars er árið hjá Kristjáni búið að vera mjög gott.  Íslandsmeistarar innanhúss, Þórisbikarinn vannst á Spáni, úrslitaleikur í deildarbikar, úrslitaleikur í bikarkeppni KSÍ og nú er spurningin hvert hann kemur okkur í deildinni.

 

Guðmundur Steinarsson stendur við stóru orðin sín.  Hann lofaði því í vor að ef Jónas Guðni myndi skora í sumar þá fengi hann að snoðklippa sig.  Jónas Guðni skoraði í bikarleiknum gegn Víkingum á dögunum.  Í gær var komið að skuldadögum og Jónas Guðni mætti sæll og ánægður með vélina sína, réðst að hári Guðmundar og renndi vélinni í gegn.  Það verður því snoðklipptur fyrirliði sem leiðir liðið gegn Fylki í næsta leik.

Myndir af klippingu: Jón Björn Ólafsson / Víkurfréttir
Aðrar myndir: Jón Örvar Arason