Fréttir

Knattspyrna | 5. desember 2008

Frí, æfingaferð, matur og afmæli

Meistaraflokkur karla er nú kominn í kærkomið jólafrí og næsta æfing er ekki fyrr en 5. janúar á næsta ári.  Ljóst er að einhverjar breytingar verða á hópnum en nokkrir leikmenn hafa yfirgefið félagið og reynt fyrir sér erlendis.  Þá fóru Guðmundur Steinarsson og Hólmar Örn Rúnarsson til Start í Noregi og voru þar í viku tíma eða svo.  Það á eftir að koma í ljós síðar hvað þeir félagar gera.

Undirbúningur er hafinn að æfingaferð erlendis á næsta ári, líklega um páskana.  Verið er að skoða ýmsa möguleika en ferðin til Tyrklands í apríl á þessu ári heppnaðist mjög vel og tímasetningin var góð.

Næstu helgi eru leikmenn, liðsstjórn og stjórnarfólk að fara á jólahlaðborð á Kaffi Duus og er ætlunin að eiga þar góða kvöldstund.  Eigum við ekki bara að segja að þetta sé lokahittingurinn hjá strákunum þetta árið og við hin fáum að vera með að þessu sinni.

Afmælisbarn dagsins er Jóhann Birnir Guðmundsson sem er 31. árs í dag 5. desember og við óskum honum til hamingju með daginn. Að sjálfsögðu eiga allir stuðningsmenn Keflavíkur að smella kossi á Jóa ef þeir rekast á hann um helgina.

Með kveðju,
Jón Örvar Arason,
liðsstjóri


Meistaraflokkur karla síðsumars.


Jói á ammæli í dag...!