Fréttir

Knattspyrna | 10. janúar 2005

Fúl blaðamennska

Í DV mánudaginn 10. janúar er einsdálksfrétt með fyrirsögninni "Keflavík kynnir Ísland".  Þar er réttilega sagt frá því að Keflavík var að kynna DVD-mynd sem heitir Play Football in Iceland.  Hér er á ferðinni vönduð auglýsingamynd um þá möguleika sem eru í boði á Íslandi fyrir erlend knattspyrnulið að stunda æfingar og keppni hér yfir vetrarmánuðina.  Á kynninguna boðuðum við alla stóru fjölmiðlana og sögðum þeim frá þessu sérstaka efni sem Úrvalsdeildarlið á Íslandi lætur útbúa til að auka hér ferðamannastraum yfir vetrarmánuðina.  Gerð þessa myndband kostaði hundruðir þúsunda og Saga film og Keflavík lögðu metnað sinn í að gera diskinn sem best úr garði.  Á fundinn mættu tveir ljósmyndarar, annar frá Víkurfréttum og hinn frá Fréttablaðinu.  Gáfu þeir sér góðan tíma til að ræða málin við okkur og kynna sér efni disksins og fannst hann góður. Blaðamaður Fréttablaðsins hringdi rétt fyrir boðaðan tíma og sagðist ekki koma en ættlaði að hafa samband við mig síðar vegna málsins.  Aðrir fjölmiðlamenn höfðu öðrum merkari hnöppum að hneppa, komu ekki né afboðuðu komu sína. Gestur Einar Jónasson útvarpsmaður fjallaði ágætlega um diskinn, m.a. með viðtali, en sá útvarpsmaður hefur öðrum fjölmiðlamönnum fremur sýnt því áhuga sem landsbyggðarfólk og félög taka sér fyrir hendur.  Framsetning hans og meðferð mála er ákaflega fagmannlega og smekklega sett fram hverju sinni, án sleggjudóma og hávaða. Það var því einkennilegt að lesa fréttina í DV þar sem beint var haft eftir mér eithvað sem ég átti að hafa sagt við blaðið.  DV hefur ekki haft samband við mig vegna þessa máls og það er því með ólíkindum að leggja manni orð í munn sem ég myndi aldrei nota við slík tækifæri og bið ég blaðamann DV að hefla betur orðfar sitt við slík tækifæri.  Fjölmiðlar, blaða- og íþróttafréttamenn ættu að líta til þess að samstarf þeirra við íþróttafélögin eru ekki aðeins aðra leiðina.  Það er mikilvægt að samstarf þessara aðila sé eins og best verður á kosið og  með það að leiðarljósi höfum við unnið með fjölmiðlum hér í Keflavík.

Ásmundur Friðriksson.