Fréttir

Knattspyrna | 16. maí 2005

Fullstórt tap í ágætum leik

Keflavík tapaði fyrir Íslandsmeisturum FH í fyrsta leik sínum í Landsbankadeildinni á þessu sumri.  Lokatölur urðu 0-3 sem var fullstórt tap miðað við gang leiksins.  Jafnræði var lengst af með liðunum en FH-ingar voru marki yfir í hálfleik.  Tryggvi Guðmundsson skoraði á 27. mínútu eftir að hafa fengið langa sendingu fram kantinn.  Hann náði að leika á Guðjón og skora með góðu skoti í fjærhornið, óverjandi fyrir Ómar.  Í seinni hálfleik var svipað upp á teningnum, okkar menn sóttu nokkuð en náðu ekki að skapa sér veruleg færi.  Þeir urðu að gera sér að góðu langskot sem Daði Lárusson, markvörður gestanna, átti ekki í teljandi vandræðum með.  Í uppbótartíma bættu FH-ingar síðan tveimur mörkum við.  Það fyrra var sjálfsmark hjá Brian O´Callaghan þegar hann reyndir að komast inn í fyrirgjöf sem stefndi á Allan Borgvardt.  Rétt á eftir skoruðu FH-ingar aftur; há sending kom inn í teiginn og stefndi beint á Ómar en Ármann Smári Björnsson náði að stökkva upp og skalla boltann yfir Ómar og í opið markið.

Keflavíkurliðið lék í raun ágætlega í leiknum og hafði lengstum í fullu tré við Íslandsmeistarana.  Þó vantaði meira bit í sóknina og við náðum aldrei að komast í dauðafæri.  Nokkur ágæt langskot sáu dagsins ljós, það besta var aukaspyrna frá Guðmundi sem Daði varði vel í horn.  Einir fimm leikmenn léku sinn fyrsta leik með Keflavík í efstu deild.  Brian O´Callaghan, Michael Johansson og Baldur Sigurðsson byrjuðu allir inn á og þeir Bjarni Sæmundsson og Gunnar Hilmar Kristinsson komu inn á sem varamenn.


Brian O´Callaghan stóð sig vel í sínum fyrsta leik.
(Mynd: Hilmar Bragi /
Víkurfréttir)

 

Keflavíkurvöllur, 16. maí 2005
Keflavík 0
FH 3 (Tryggvi Guðmundsson 27., sjálfsmark 90., Ármann Smári Björnsson 90.)

Keflavík (4-5-1): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Brian O´Callaghan, Michael Johansson, Gestur Gylfason - Jónas Guðni Sævarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson, Ingvi Rafn Guðmundsson (Gunnar Hilmar Kristinsson 90.), Hörður Sveinsson - Guðmundur Steinarsson (Bjarni Sæmundsson 65.) 

Varamenn: Magnús Þormar, Ásgrímur Albertsson, Atli Rúnar Hólmbergsson
Gult spjald: Gestur Gylfason (74.)

Dómari: Ólafur Ragnarsson
Aðstoðardómarar: Einar K. Guðmundsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson
Varadómari: Egill Már Markússon
Eftirlitsdómari: Ingi Jónsson
Áhorfendur: 2.357