Fullt hús hjá 3. flokki; B-liðið vann titilinn
Piltarnir í 3. flokki gera það ekki endasleppt og í dag kláraði B-liðið sumarið með stæl með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Strákarnir mættu öflugu liði Þróttara í dag í Reykjaneshöllinni og unnu 2-1 sigur í hörkuleik þar sem öll mörkin komu í fyrri hálfleik. Margeir Felix Gústavsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábæra sendingu frá Þorbirni Þór Þórðarsyni og Arnór Svansson kom svo Keflavík í 2-0. Þróttarar minnkuðu muninn rétt fyrir leikhlé. Það var hart barist í seinni hálfleik og Keflavík fékk þá m.a. vítaspyrnu en markvörður Þróttar varði frá Helga Þór Jónssyni. En strákarnir kláruðu leikinn með glæsibrag og tryggðu sér titilinn en þessir strákar hafa staðið sig frábærlega í allt sumar.
Keflavík vann því alla titla sem í boði voru í sumar hjá 3. flokki. Í vor unnu strákarnir Faxaflóamótið hjá bæði A- og B-liðum. Liðið varð svo bikarmeistari á dögunum, um síðustu helgi varð A-liðið Íslandsmeistari og nú hefur B-liðið unnið sinn titil. Það er ljóst að þessir strákar eiga eftir að láta mikið til sín taka næstu árin. Við óskum piltunum til hamingju með þennan frábæra árangur og einnig þjálfurum þeirra, þeim Zoran Ljubicic og Hauki Benediktssyni.
B-lið Keflavíkur með Íslandsbikarinn.
Hinn öflugi 3. flokkur Keflavíkur í öllu sínu veldi.