Fundur með áhrifamönnum
Síðastliðinn fimmtudag hélt stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur fund sem á voru boðaðir áhrifamenn af Suðurnesjum. Þokkaleg mæting var á fundinn. Rúnar V. Arnarson, formaður Knattspyrnudeildar, kynnti fyrir fundarmönnum stöðu deildarinnar og framtíðarsýn en mikil gróska er í starfi deildarinnar og nær hún langt út fyrir raðir stjórnarmanna. Stemmning er í allri starfsemi deildarinnar og fjöldi stuðningsmanna tekur þátt í henni af miklum móð. Formaðurinn kynnti einnig fyrir fundarmönnum K-fjárfestingu sem er félag í eigu einstaklinga og félaga í Reykjanesbæ og Suðurnesjum. K-fjárfesting hefur staðið dyggilega við bakið á Knattspyrnudeildinni undanfarin ár og þar á bæ er mikill áhugi fyrir frekari stuðningi. Rúnar sagði að þar væri unnin mikið og gott starf. Guðjón Þórðarson þjálfari Keflavíkur var með langan og fróðlegan fyrirlestur um knattspyrnu, rakti feril sinn, hugmyndir og hugsjónir. Hann ræddi stöðuna hjá liðinu, framtíðarsýn sína og margt annað fróðlegt. Góður rómur var gerður að erindi Guðjóns og fjörugar umræður fundarmanna spruttu í kjölfarið. Þá fór framkvæmdastjóri deildarinnar Ásmundur Friðriksson yfir ýmis málefni deildarinnar sem er í vinnslu og mótunarstarfi.
Myndir: Jón Örvar Arason