Fréttir

Knattspyrna | 21. janúar 2011

Futsal - Fyrsti landsleikur Íslands í kvöld

Í kvöld, föstudaginn 21. janúar, fer fram fyrsti landsleikur Íslands í Futsal og verða Lettar mótherjarnir.  Leikurinn er liður í forkeppni EM 2012 en riðill Íslands, B riðill, fer fram á Ásvöllum.  Riðillinn hefst með leik Grikkja og Armena kl. 16:30 en kl. 19:00 mætast Íslendingar og Lettar.  Hægt er að sjá leikinn í beinni útsendingu á vefsjónvarpi Hauka.

Það er óhætt að segja að íslenska liðið sé óskrifað blað í Futsal heiminum enda þetta fyrsta tækifærið til að láta að sér kveða.  Willum Þór Þórsson, landsliðsþjálfari, valdi í upphafi 28 leikmenn til æfinga og stendur nú helmingurinn eftir, fjórtán leikmenn.  Hópurinn er skemmtilega blandaður, reynsluboltar eru á ferðinni ásamt óreyndari leikmönnum.  Aldursbilið á milli elsta og yngsta leikmanns eru 20 ár.

Hinar þjóðirnar komu til landsins í gær en íslenska liðið hélt inn á hótel eftir æfingu í gær.  Það er mikill hugur í mönnum enda verkefnið gríðarlega spennandi og krefjandi.

Það er um að gera fyrir alla íþróttaáhugamenn að fjölmenna á Ásvelli og hvetja íslenska liðið áfram í þessum fyrsta landsleik.  Aðgangur er ókeypis á alla leiki mótsins.

Frétt af vef KSÍ.
Leikir og riðillinn.