FUTSAL lokið - Keflavík tapaði fyrir Eindhoven
Keflvíkingar töpuðu lokaleik sínum í Evrópukeppninni í FUTSAL gegn Eindhoven 5-16. Eins og tölurnar gefa til kynna þá var á brattann að sækja hjá Keflavík. Eindhoven varð að vinna með átján marka mun til að komast áfram og liðið sótti hressilega að marki okkar allan tímann. Keflavík átti aldrei möguleika gegn þessu sterka atvinnumannaliði, fyrir utan fyrstu mínútur leiksins. Staðan í hálfleik var 2-8 og Frakkarnir á áhorfendapöllunum sem studdu Keflavík voru að fara yfir um.
Árni Freyr kom í markið í seinni hálfleik og stóð sig frábærlega eins og allir hinir kjúllarnir sem spiluðu mest allan seinni hálfleikinn og stóðu sig fantavel. Lokastaðan varð 5-16 fyrir Eindhoven en það dugði þeim hollensku ekki því frakkarnir í KBU France fóru áfram á betri markatölu. Lið KBU France var mun agaðra lið en Eindhoven og eiga fyllilega skilið að fara áfram. Það setti ljótan blett á leikinn þegar besti leikmaður hjá Eindhoven sparkaði illilega í Arnór Ingva á lokamínutunum og fékk réttilega rautt spjald. Arnór Ingvi var búinn að halda þessum snjalla leikmanni niðri allan seinni hálfleikinn.
Umgjörð mótsins verða gerð góð skil fljótlega enda verður að skrifa um það sem vel er gert. Fyrri leik dagsins lauk með sigri KBU France gegn Vimmerby IF 18-2.
Mörk Keflavíkur: Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þór Magnússon og Arnór Ingvi Traustason.
Byrjunarlið Keflavíkur: Eyþór Ingi Júlíusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Bojan Stefán Ljubicic og Magnús Sverrir Þorsteinsson fyrirliði.
Aðrir leikmenn sem allir komu við sögu í leiknum: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Viktor Smári Hafsteinsson, Arnór Ingvi Traustason, Theodór Halldórsson, Zoran Daníel Ljubicic og Lúkas Malesa.
Liðsstjórn: Willum Þór Þórsson, Þór Hinriksson, Jón Örvar Arason, Falur Helgi Daðason, Þórólfur Þorsteinsson og Björgvin Björgvinsson.
Lið Keflavíkur gegn Eindhoven.
Lagt á ráðin.
Gummi skorar með þrumuskoti.