Fylkir - Keflavík á þriðjudag og ókeypis inn
Fylkir og Keflavík mætast í 16. umferð Landsbankadeildarinnar þriðjudaginn 30. ágúst. Leikurinn hefst á Fylkisvelli kl. 18:00. Við vekjum athygli á því að aðgangur er ókeypis en Brimborg býður á völlinn að þessu sinni. Þessi viðureign er báðum liðum mjög mikilvæg og gæti ráðið miklu um það hvort liðið nær að veita Skagamönnum keppni um 3. sæti deildarinnar. Dómari leiksins verður Eyjólfur M. Kristinsson, honum til aðstoðar verða Eyjólfur Ágúst Finnsson og Sigurður Óli Þórleifsson. Eftirlitsmaður KSÍ er Páll Júlíusson.
Keflavík og Fylkir hafa leikið 15 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1989. Nokkuð jafnt er komið á með liðunum í innbyrðis leikjum. Keflavík hefur unnið 5 leiki og Fylkir 4 en sex hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 19-21 fyrir Fylki. Stærsti sigur Fylkismanna er 4-0 árið 2000 en Keflavík hefur unnið nokkra leiki með tveggja marka mun. Mesti markaleikur milli liðanna kom síðasta sumar þegar Keflavík vann 4-2. Fjórir leikmenn sem nú leika með Keflavík hafa skorað gegn Fylki í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur gert tvö mörk og þeir Gestur Gylfason, Hörður Sveinsson og Stefán Örn Arnarson eitt hvor. Gestur skoraði einnig tvívegis gegn Fylki í gömlu 2. deildinni árið 1990. Keflavík hefur aldrei sigrað Fylki á útivelli í efstu deild og Fylkir hefur aldrei unnið í Keflavík. Liðin hafa sjö sinnum mæst á Fylkisvellinum; Fylkir hefur fjórum sinnum unnið en þremur leikjanna hefur lokið með jafntefli.
Liðin hafa þrisvar mæst í bikarkeppninni og hefur Keflavík unnið alla leikina, árin 1989, 1995 og 2004. Markatalan er 5-1 fyrir Keflavík.
Keflavík mætti Fylki 8 sinnum í B-deild á árunum 1981-1992. Þar vann Keflavík sex leikjanna, einum lauk með jafntefli og Fylkir vann einn. Markatalan er 15-5 fyrir Keflavík. Eins og áður sagði skoraði Gestur Gylfason tvisvar gegn Fylki í 2. deildinni árið 1990.
Liðin léku í 7. umferð Landsbankadeildarinnar fyrr í sumar á Keflavíkurvelli. Keflavík náði forystu í leiknum með sjálfsmarki gestanna en Hrafnkell Helgason jafnaði. Stefán Örn Arnarson kom Keflavík aftur yfir en Christian Christiansen tryggði Fylkisliðinu annað stigið.
Ekki hefur verið mikill samgangur milli Keflavíkur og Fylkis í gegnum árin. Keflvíkingurinn Haukur Ingi Guðnason er nú í herbúðum Fylkis og Þórir Sigfússon hefur starfað sem þjálfari hjá báðum félögum.
Úrslit í leikjum Fylkis og Keflavíkur á heimavelli Fylkis hafa orðið þessi í efstu deild:
2004 | Fylkir - Keflavík | 2-0 | ||
2002 | Fylkir - Keflavík | 2-0 | ||
2001 | Fylkir - Keflavík | 2-2 | Haukur Ingi Guðnason Þórarinn Kristjánsson | |
2000 | Fylkir - Keflavík | 4-0 | ||
1996 | Fylkir - Keflavík | 2-0 | ||
1993 | Fylkir - Keflavík | 2-2 | Gestur Gylfason Sverrir Þór Sverrisson | |
1989 | Fylkir - Keflavík | 0-0 |