Fréttir

Knattspyrna | 18. janúar 2004

Fylkir sigurvegarar í Hitaveitumótinu

Það voru Fylkismenn sem sigruðu í karlaflokki í Hitaveitumótinu sem lauk í Reykjaneshöllinni í kvöld.  Fylkir vann Keflavík í úrslitaleik mótsins eftir vítaspyrnukeppni.  Lokatölurnar í leiknum urðu 2-2 eftir ágætan leik.  Ólafur Páll Snorrason kom Fylki yfir eftir rúmlega 20 mínútna leik en Hörður Sveinsson jafnaði rétt fyrir leikhlé.  Helgi Valur Daníelsson kom gestunum aftur yfir með marki úr vítaspyrnu um stundarfjórðungi fyrir leikslok.  Jöfnunarmarkið kom síðan á síðasta mínútunni; eftir hornspyrnu átti Stefán hörkuskalla að fjærstönginni þar sem einn leikmanna Fylkis reyndi að bjarga á marklínunni en sendi boltann í eigið mark.  Þá var gripið til vítaspyrnukeppni án þess að leika framlengingu.  Þar varði markvörður Fylkismanna þrjár spyrnur okkar manna en aðeins ein rataði rétta leið.  Fylkismenn skoruðu hins vegar úr þremur spyrnum en ein fór í stöngina og það voru því Árbæingar sem tóku við sigurlaunum mótsins úr hendi Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja.
Keflavík: Magnús (Rúnar Dór 46.) - Guðjón, Stefán, Haraldur, Ólafur Ívar (Hafsteinn 68.) - Ingvi Rafn (Scott 46.), Jónas, Kristján, Hólmar Örn, Zoran - Hörður (Magnús 46.)

Fyrr í dag léku Stjarnan og FH um 3. sætið og hrepptu Stjörnupiltar það með 6-4 sigri á nágrönnum sínum úr Hafnarfirði.  Guðjón Baldvinsson skoraði þrennu fyrir Stjörnuna og þeir Adolf Sveinsson, Andrés Logason og Sveinn Snorri Magnússon eitt hver.  Emil Hallfreðsson og Pétur Sigurðsson skoruðu sín hver tvö mörkin fyrir FH-inga.