Fyrirlestur og leikir hjá 2. flokki
Leikmenn 2. flokks Keflavíkur og Njarðvíkur fengu góðan gest á dögunum þegar Helgi Jónas Guðfinnson, fyrrverandi atvinnumaður í körfubolta, hélt fyrlestur fyrir hópinn. Helgi fór yfir sögu sína og kynnti fyrir strákunum hvað þyrfti að gera til að ná árangri í íþróttinni. Farið var yfir mataræði, æfingaplan, markmið, hvíld, metnað og myndaðist mikil og góð stemmning í fyrirspurnum. Það er greinilegt að það er mikill áhugi hjá 2. flokks strákunum en alls eru skráðir 45 strákar í 2. flokki Keflavíkur/Njarðvíkur og hafa aldrei verið fleiri iðkendur í 2. flokki.
Strákarnir hafa líka verið að spila og um síðustu helgi mættu þeir Breiðabliki á Faxaflóamótinu. A-liðið tapaði 1-2 í bráðskemmtilegum leik þar sem sigurinn gat lent báðum megin. Það var Aron Róbertsson sem gerði markið fyrir okkar stráka. B-liðið vann nokkuð öruggan sigur í sínum leik en þar urðu lokatölur 2-0. Birkir Freyr Birkisson og Óðinn Jóhannsson gerðu mörkin.
Næstu leikir hjá 2. flokknum verða á Selfossi laugardaginn 8. mars en þá verða andstæðingarnir Selfoss/Hamar/Ægir.