Fyrsta tap sumarsins í Laugardalnum
Fyrsta tap Keflavíkur í Landsbankadeild karla í sumar kom á Valbjarnarvelli þar sem okkar menn lutu í lægra haldi fyrir sprækum Þrótturum sem unnu sinn fyrsta sigur í deildinni. Michael Jackson kom heimamönnum yfir í upphafi leiks en Guðjón jafnaði leikinn um miðjan fyrri hálfleik. Um fimmtán mínútum fyrir leikslok kom Keflvíkingurinn Adolf Sveinsson Þrótti aftur yfir og Hjörtur Hjartarson bætti við marki tíu mínúutm síðar. Hólmar Örn minnkaði muninn undir lokin en nær komumst við ekki í þetta sinn. Keflavík er því í 2. sæti deildarinnar með 12 stig eftir fimm leiki en Þróttur er í því 9. með 5 stig. Næsti leikur er heimaleikur gegn KR sunnudaginn 8. júní. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Sparisjóðsvellinum.
Víkurfréttir
Keflvíkingar máttu sætta sig við sitt fyrsta tap á leiktíðinni þegar þeir lutu í lægra haldi fyrir Þrótti í Reykjavík í kvöld, 3-2. Þannig leið sigurganga þeirra undir lok, en þeir höfðu unnið fyrstu fjóra leiki tímabilsins.
Michael Jackson kom Þrótturum yfir á 17. mínútu en Guðjón Árni Antoníusson jafnaði metin eftir um hálftíma leik. Þannig var staðan allt fram á 76. mín þegar Keflvíkingurinn fyrrverandi Adolf Sveinsson kom sínum mönnum í Þrótti í 2-1. Hjörtur Hjartarson kom Þrótturum svo í 3-1 á 84. mínútu og gerði út um leikinn en Hólmar Örn Rúnarsson náði að rétta hlut Keflvíkinga á lokamínútunum rétt áður en hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir ljótt brot.
Fótbolti.net
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var að vonum svekktur eftir 3-2 liðsins gegn Þrótti í Landsbankadeildinni í kvöld.
„Tilfinningin er ömurleg, það er algjörlega ömurlegt að tapa leik.“ sagði Kristján við Fótbolta.net að leik loknum. Hann segir Þróttara ekki hafa komið sér á óvart. „Alls ekki , við vissum alveg að þeir kæmu með þessum krafti inn í leikinn, það var alveg klárt.“
Hólmar Örn Rúnarsson leikmaður Keflvíkinga fékk beint rautt spjald undir lok leiksins hjá Örvari Sæ Gíslasyni sem var að dæma sinn fyrsta leik í efstu deild. Kristján var óánægður með nokkur atriði í dómgæslunni. „Það voru þarna atriði sem að skipta miklu máli í leiknum sem ég er ekki ánægður með.“
Keflvíkingar mæta KR-ingum í næsta leik og Kristján vonast til að sínir menn komi sterkir til baka eftir tapið í kvöld. „Ég ætla að vona að menn stígi upp, að þeir sem að áttu dapran leik í dag stígi upp og eigi góðan leik næst og bæti fyrir mistökin,“ sagði Kristján að lokum við Fótbolta.net.
gras.is
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar var að vonum ánægður í leikslok eftir að hans lið hafði unnið Keflavík 3-2 í Landsbankadeildinni í kvöld. Hann gerði tvær breytingar á liðinu frá síðasta leik og sagði að með þessu hugarfari geti Þróttur staðið í hvaða liði sem er.
„Við vorum með yfirhöndina á leiknum í fyrrihálfleik og Keflavík var ekkert að skapa sér neitt. Bjarki verður fyrir því óláni að missa boltann inn og þeir jafna leikinn en annars voru þeir ekkert að gera neinn skapaðan hlut. Við vorum að skapa hættu í okkar hornspyrnum og föstu leikatriðum. Við vissum hversu skæðir þeir eru og lokuðum á þeirra skæðustu menn og það gekk upp.“
„Þetta er bara barátta áfram og við mætum með þetta hugarfar í hvern leik á eigum við möguleika. Já ég gerði tvær breytingar frá síðasta leik og þeir menn sem komu inn (Adolf og Francisco) eru sterkir og stóðu sig vel og við eigum marga góða menn sem geta komið svona inn,“ sagði Gunnar Oddsson í samtali við Gras.is
Morgunblaðið
Þróttarar voru vel að sigrinum komnir. Þeir höfðu baráttuna og viljann fram yfir Keflvíkinga og greinilegt er að ósigurinn á móti Fjölni í 1. umferðinni hefur stappað stálinu í lærisveina Gunnars Oddssonar. Vörnin var nokkuð þétt fyrir með miðverðina Michael Jackson og Þórð Steinar Hreiðarsson fasta fyrir. Á miðjunni var Daninn Dennis Danry sterkur og þeir Hallur Hallsson og Haukur Páll Sigurðsson duglegir. Adolf Sveinsson og Rafn Andri Haraldsson átti fína spretti og Hjörtur var mjög sprækur þann tíma sem hann spilaði. Keflvíkingar voru ólíkir sjálfum sér og náðu aldrei að komast á flug. Mikil deyfð var ríkjandi í herbúðum liðsins og margir leikmenn liðsins léku undir getu. Guðjón Árni Antoníusson var þeirra besti maður.
Guðjón Árni Antoníusson M, Hallgrímur Jónasson M, Símun Samuelsen M
Fréttablaðið
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var svekktur í leikslok en hrósaði Þrótti fyrir góðan leik. „Ég er mjög óhress með mína menn og mér fannst við einbeitingarlausir og það vantaði eitthvað upp á að við værum tilbúnir að spila þennan leik og Þróttarar voru einfaldlega hungraðri,“ sagði Kristján.
Ómar 5, Guðjón 6, Guðmundur Mete 5, Kenneth 5, Nicolai 4 (Hörður -), Hólmar Örn 6, Hallgrímur 6, Hans 5 (Jón Gunnar -), Símun 4, Patrik 6, Guðmundur 5 (Þórarinn -).
Landsbankadeildin, 1. júní 2008 - Valbjarnarvöllur
Þrótur 3 (Michael Jackson 17., Adolf Sveinsson 76., Hjörtur Hjartarson 85.)
Keflavík 2 (Guðjón Árni Antoníusson 31., Hólmar Örn Rúnarsson 87.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Nicolai Jörgensen (Hörður Sveinsson 72.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Hallgrímur Jónasson, Hans Mathiesen (Jón Gunnar Eysteinsson 85.), Símun Samuelsen - Guðmundur Steinarsson (Þórarinn Kristjánsson 80.), Patrik Redo.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Þorsteinsson.
Rautt spjald: Hólmar Örn Rúnarsson (90.)
Dómari: Örvar Sær Gíslason.
Aðstoðardómarar: Einar K. Guðmundsson og Oddbergur Eiríksson.
Eftirlitsmaður: Eyjólfur Ólafsson.
Áhorfendur: 845.
Guðjón skorar og jafnar en það dugði ekki í þetta sinn.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)