Fyrsta tapið á heimavelli
Jæja þá í þetta sinn. Annað stórt tap okkar manna og spurningin er... hvað er að ske? Það vilja sjálfsagt flestir vita, leikmennirnir og örugglega vildi þjálfarinn vita það líka. Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Tap fyrir Breiðabliki á heimavelli 0-3 er eitthvað sem menn bjuggust ekki við. Flestir héldu nú að menn tækju sig saman í andlitinu og sýndu fólki hvað í þá væri spunnið. Jú, það voru batamerki frá síðasta leik en samt langt í frá að vera boðlegt. Núna fengum við þó færi á því að skora en ekki vildi boltinn inn þrátt fyrir dauðafæri okkar manna; fengum meira að segja vítaspyrnu og tvísvar sinnum var bjargað á línu svo eitthvað sé nefnt. Við mættum bara sterku liði sem kom tilbúið til leiks og var sterkara heilt yfir. Breiðablik er með fullt af sprækum strákum sem gerði okkur lífið leitt í þessum leik. Sanngjarn Blikasigur í þetta sinn,en við eigum eftir að mætast aftur. Undanúrslitin í VISA-bikarkeppninni eru 13. september í Laugardalnum og þá getum við vonandi stillt upp okkar sterkasta liði og sýnt þeim grænklæddu hvað við getum.
Í gær var Símun í banni, og þeir Lasse Jörgensen, Alen Sutej, Haukur Ingi og Hörður Sveins voru frá vegna meiðsla.
Nú er kærkomið frí í einhverja sjö til átta daga. Kristján og Einar eiga erfitt verkefni framundan til að koma liðinu á rétta braut og þeir munu örugglega nýta þessa daga vel ásamt strákunum og fara vel yfir gang mála. Næsti leikur liðsins er mánudaginn 17. ágúst á (gervi)grasinu í Garðabæ.
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Nicolai Jörgensen, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson fyrirliði, Jón Gunnar Eysteinsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson og Magnús Þórir Matthíasson (Bessi Víðisson 66.)
Varamenn: Lesse Jörgensen, Sverrir þór Sverrisson, Einar Orri Einarsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Alen Sutej og Ásgrímur Rúnarsson.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum það hér með þeirra leyfi:
,,Þetta er aðallega bara leiðinlegt. Við erum svo lélegir að það var leiðinlegt," sagði niðurlútur þjálfari Keflvíkinga Kristján Guðmundsson eftir tap gegn Breiðablik í kvöld.
Það var ekki mikið sem gekk upp hjá heimamönnum í leiknum eins og Kristján bendir réttilega á.
,,Það fór allt úrskeiðis í kvöld. Við getum ekki einusinni sparkað boltanum inn í teiginn í hornspyrnum, við getum ekki kastað á samherja í innkasti, við getum ekki skorað úr vítaspyrnu, við erum ekki nálgægt mönnum í að dekka og svo framvegis."
Keflvíkingar töpuðu síðasta leik sínum illa og það sat hugsanlega eitthvað í þeim.
,,Að einhverju leyti. En það er hluti af þessu einbeytingarleysi að láta svoleiðis hluti sitja í okkur. Ef við ætlum að bæta fyrir það þá eigum við að gera aðeins betur."
Eftir síðasta leik talaði Kristján um slæmt hugarfar en hann hefur aðrar skýringar á slæmu gengi núna.
,,Ákveðið hugarfar en það er ákveðið einbeytingar- og agaleysi sem er greinilega í gangi."
Keflvíkingar eru nú farnir að fjarlægjast toppliðin en Kristján er vongóður um að slæma kafla sinna manna sé lokið.
,,Ég veit ekki alveg hver staðan er í deildinni, við erum þarna einhversstaðar í miðjunni og við verðum að fara að spila betur. Vonandi erum við búnir að taka út vitleyuna í þessum tveimur leikjum."
Hart sótt að marki Blika en ekkert gekk.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)