Fyrsta tapið í Faxanum
Stelpurnar í 3. flokki tóku á móti Breiðablik í Faxaflóamótinu í gær, spilað var í Reykjaneshöllinni. Leikur okkar bar þess merki að viss virðing var borin fyrir þessu Breiðabliksliði sem var algjör óþarfi þegar horft er á leikinn eftir á. Ekki var liðin nema mínuta af leiknum þegar gestirnir komust yfir 0-1. Markvörður þeirra átti langt útspark og létum við boltann skoppa í völlinn og yfir okkur þar sem að Bliki stakk sér í gegn, lék á markvörðinn og renndi boltanum í netið. Á 5. mínutu náðum við að jafna leikinn eftir hornspyrnu sem Eva tók og Helena Rós skallaði knöttinn í netið. Mínutu seinna fá gestirnir hornspyrnu, markvörðurinn náði ekki að halda knettinum sem barst út í markteig þar stóðum við og horfðum á gestina setja á okkur annað markið. Þarna vantaði alla grimmd og ákveðni að hreinsa í burtu. Ekki liðu nema sex mínutur eða á þeirri tólftu að við jöfnum leikinn á ný. Helena Rós tók á rás með boltann upp vinstri kantinn (eins og hún gerir best) upp að endamörkum og gaf boltann fyrir þar sem Karen stökk hæst upp og skallaði í markið, glæsilegt mark. Sannarlega fjörugar 12 mínutur. Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn nokkuð og bæði lið sóttu á víxl en samt var þetta mest miðjuhnoð þar sem Blikarnir voru sterkastar. Staðan í hálfleik 2-2.
Seinni hálfleikur spilaðist þannig að gestirnir voru að reyna stungur á sína fljótu framherja og við í sama miðjuhnoðinu. Í þau fáu skipti sem við sóttum upp kantana skapaðist hætta upp við mark Blika og hefðum við alveg getað sett inn eitt með smá heppni. Þegar 6 mínutur lifðu leiks gerðist umdeilt atvik; varnarmaður hugðist senda boltann til baka á markmann en ekki vildi betur til en að Bliki komst inn á milli, náði boltanum, plataði markmanninn og átti ekkert annað eftir en að renna boltanum í netið. Hún þrumaði í stöngina og hrökk boltinn í andlit varnarmanns svo úr munni blæddi og í horn. Aðstoðardómari veifaði og héldu allir að hann væri að dæma horn en aldeilis ekki, hann kallar á dómara leiksins og eftir smá fund dæmir dómarinn vítaspyrnu, furðulegt nokk. Ekki einu sinni leikmenn Breiðabliks né þjálfari, hvað þá foreldrar, heimtuðu víti en brostu gleitt er dómarinn benti á vítapunktinn. Úr spyrnuni var skorað og þar með leikurinn einnig. Stelpurnar geta gert miklu betur og þurfa ekki að óttast nein lið hvað svo sem þau heita, heldur einfaldlega að taka fastar á þeim og spila sinn bolta.
3. flokkur kvenna:
Keflavík - Breiðablik: 2-3 (Helena Rós Þórólfsdóttir, Karen Sævarsdóttir)
Byrjunarlið: Anna Rún Jóhannsdóttir, Justyna Wróblewska, Rebekka Gísladóttir, Helga M. Hauksdóttir, Ingibjörg S. Björnsdóttir, Birna M. Aðalsteinsdóttir, Eva Kristinsdóttir (fyrirliði), Katrín Steinþórsdóttir, Helena Rós Þórólfsdóttir, Andrea Frímannsdóttir, Karen Sævarsdóttir.
Varamenn: Guðmunda Gunnarsdóttir, Sonja Ósk Sverrisdóttir, Guðbjörg Guðjónsdóttir, Birna Ásgeirsdóttir, Hildur Haraldsdóttir, Bergþóra Sif Vigfúsdóttir, Heiða Guðnadóttir, Sigrún Guðmundsdóttir.
Elís Kristjánsson, þjálfari