Fyrsti A-landsleikurinn hjá Hallgrími
Keflvíkingar komu heilmikið við sögu í landsleik Íslands og Færeyja sem fram fór í knattspyrnuhúsinu Kórnum í Kópavogi í gær. Þetta var í fyrsta skipti sem Íslands leikur A-landsleik innanhúss og liðið hélt upp á það með 3-0 sigri. Keflvíkingurinn og KR-leikmaðurinn Jónas Guðni Sævarsson skoraði eitt markanna og það með skalla! Tveir leikmenn Keflavíkur komu við sögu í leiknum. Símun Samuelsson var í byrjunarliði Færeyinga og átti góðan leik en fór síðan út af vegna meiðsla í seinni hálfleiknum. Hallgrímur Jónasson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu og lék þar með sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland. Við óskum honum til hamingju með að vera kominn í stóran hóp landsliðsmanna Keflavíkur. Okkur telst til að hann sé þar með 32. leikmaðurinn sem leikur landsleik sem leikmaður Keflavíkur. Hallgrímur var einn fimm leikmanna Íslands sem voru að leika sinn fyrsta landsleik og þá var ánægjulegt að sjá að Guðmann nokkur Þórisson, leikmaður Breiðabliks, var í þeim hópi.
Hallgrímur lék sinn fyrsta landsleik.
(Mynd frá KSÍ)