Fyrsti pistill frá Spáni - Ungir
Oliva Nova á Spáni, dagur eitt
Lentum í Alacante og keyrðum svo til Oliva Nova sem var rúmlega klukkustundar akstur og vorum komnir á hótelið um kl. 17:00. Raðað í flýti á herbergin og menn komu sér fyrir því það var engin miskun hjá Willum og Þór og æfing kl. 17:30, takk fyrir. Strákarnir bara hressir og æfingin létt og skemmtileg enda á það að vera þannig, þegar menn komast út á grasið og í 16 stiga hita í þokkabót. Meira að segja Ómar og Árni Freyr fengu frí frá Rajko og voru með á skokkinu með strákunum. Ungir - gamlir verður spilað á hverri æfingu og unnu ungir fyrstu æfinguna við litla hrifningu þeirra eldri. Með í ferðinni eru félagarnir Siggi Jóns og Garðar sem mynda alla hreyfingu strákanna í ferðinni.
Hótelið er mjög gott og herbergin fín. Maturinn er góður og dessertinn fínn að sögn Dóa búningameistara. Ef það er eitthvað sem mönnum vantar þá er Einar fararstjóri strax búinn að redda því strax. Nettengingin er frekar slöpp hérna og mjög seinvirk sem fer illa í taugarnar á sumum... segi ekki meir. Það var farið snemma í háttinn, enda menn lúnir eftir langt ferðalag.
Oliva Nova Spáni, dagur tvö
Vaknað snemma í morgunmatinn enda æfing kl. 10:00. Æfingin mjög góð og vel tekið á því og voru félagarnir Willum, Þór og Rajko sáttir með strákana sína. Aftur tapa eldri og staðan orðin 2-0 fyrir unga. Það verður tekið á því á seinni æfingunni trúi ég enda þeir eldri ekki ánægðir með stöðuna. Rólegheit hjá flestum eftir hádegi nema hjá Fal sjúkra sem fór út að hlaupa sína kílómetra og alls urðu þeir fimmtán í dag. Munaði minnstu að Falur ætti ekki afturkvæmt vegna hunda sem ekki voru ánægðir með hlauparann og gerðu allt til að ná til hans. En Falur er fljótur hlaupari og komst á hótelið í tæka tíð fyrir æfinguna.
Jæja. þá er seinni æfingunni lokið í dag og var mikið spilað og mikið skotið. Stillt upp í unga - gamla þar sem þeir ungu unnu eina ferðinna enn. Magnús Þórir fór á kostum fyrir unga og skoraði fjögur mörk og sigurmarkið hans kom á lokasekúndum leiksins. Staðan orðin 3-0 fyrir unga og þarf að fara mörg ár aftur til að finna annað eins. En það eru margar æfingar eftir svo ekki skal afskrifa þá gömlu. Jói Guðmunds sagði að þeir væru bara svona lengi í gang og þetta færi að koma hjá þeim. Eftir æfingu notuðu menn gufubaðið, sundlaugina og flest það sem hótelið býður upp á. Kvöldmatur kl. 19:30 og svo gera menn sig klára fyrir Barca og Arsenal í meistaradeildinni.
Æfing í fyrramálið kl. 10:00 og kl. 18:00 verður spilað við Denia FC. Reynt verður að tilkynna byrjunarliðið á heimasíðunni um leið og Willum er klár með liðið og ætti það að vera um kl. 12:00 á íslenskum tíma. Líklega verða Jóhann Birnir og Magnús Sverrir hvíldir í leiknum.
Margar myndir hafa verið teknar en eitthvað vesen er að koma þeim í tölvu. Tæknimaður liðsins Sigurður Jónsson ætlar að hjálpa frænda sínum í kvöld og við vonum bara það besta.
Kær kveðja,
Jón Örvar Arason
Keflavík FC