Fyrstu leikirnir hjá 4. flokki kvenna
4. flokkur kvenn lék sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu er þær fengu Fylki í heimsókn en leikið var á Iðavöllum,bæði í A- og B-liðum.
Í A-liðum léku okkar stelpur undan strekkingsvindi í fyrri hálfleik og komust þær aldrei í takt við leikinn. Þær virtust ekki hafa trú á því að þær gætu unnið lið Fylkis sem er reyndar sterkt en það eru okkar stelpur líka þegar að þær hafa trú á því sem að þær eru að gera. Í stað þess að pressa og sækja undan rokinu duttum við full aftarlega á völlinn og létum þær algjörlega stjórna leiknum. Fyrir bragðið fengum við á okkur tvö mjög ódýr mörk í fyrri hálfleik en annað markið kom eftir að brotið hafði verið á varnarmanni okkar.
Eftir að hafa farið yfir stöðuna í pásunni komu stelpurnar ákveðnar til leiks og nú fóru áhorfendur að kannast við þær. Boltinn fór að ganga og tæklingar að vinnast og stelpurnar að skapa sér færi en smá heppni vantaði upp á að reka endahnútinn á þetta. Í stöðunni 0-2 áttu stelpurnar að fá vítaspyrnu er varnarmður Fylkis handlék knöttinn inn í teig en ekkert dæmt. Til gamans má geta þess að liðið fékk ekki eina aukaspyrnu í öllum leiknum en því er ekki að þakka prúðmannlegum leik gestanna. Stelpurnar fóru að koma framar á völlinn og freista þess að minka minnka muninn. Við það opnaðist vörnin og Fylkisstelpur fengu skyndisóknir og úr einni skoruðu þær þriðja markið og í tvígang bjargaði Zohara vel í markinu. Eins og áður segir var lukkan ekki með okkur í að nýta færin og eins var markvörður Fylkis að verja vel. Ef stelpurnar hefðu spilað fyrri hálfleik eins og þær voru að spila í þeim seinni er ég ekki viss á að þetta hefði orðið niðurstaðan, 0-3.
B-liðið lék á móti vindinum í fyrri hálfleik og voru þær mun ákveðnari heldur en Fylkir og ætluðu heldur betur að hefna ófaranna hjá A-liðinu. Fylkir skoraði reyndar fyrsta mark þessa leiks en það stóð ekki lengi því Guðrún Ólöf jafnaði og Eyrún Ósk kom Keflavík yfir 2-1og þannig var staðan í hálfleik. Í þeim seinni var bara eitt lið á vellinum, lið heimamanna og aðeins spurning hversu mörg mörkin yrðu í leikslok. Stelpurnar sóttu stíft og brutu nánast allar sóknaraðgerðir gestanna á bak aftur. Er blásið var til leiksloka höfðu stelpurnar bætt við fimm mörkum og sigruðu því 7-1.
A-lið:
Keflavík - Fylkir: 0-3
Keflavík: Zohara Kristín, Laufey Ósk Andrésdóttir, Elsa Hreinsdóttir, Sveindís Þórhallsdóttir, Fanney Kristinsdóttir, Sigurbjörg Auðunsdóttir, Freyja Hrund Marteinsdóttir, Jóhanna Jóhannesdóttir.
B-lið:
Keflavík - Fylkir: 7-1 (Guðrún Ólöf Olsen 2, Berta Björnsdóttir 2, Eyrún Ósk Magnúsdóttir, Matthildur Ósk Jóhannsdóttir, Ingibjörg Íris Ásgeirsdóttir)
Keflavík: Ísabella Ósk Eyþórsdóttir, Berta Björnsdóttir, Eyrún Ósk Magnúsdóttir, Guðrún Ólöf Olsen, Jenný Þorsteinsdóttir, Ingibjörg Íris Ásgeirsdóttir, Matthildur Ósk Jóhannsdóttir, Sigrún Eva Magnúsdóttir, Elísa Gunnlaugsdóttir, Hulda Magnúsdóttir, Helena Sævarsdóttir.
Elís Kristjánsson, þjálfari