geoSilica styrkir kvennaboltann
Fyrirtækið geoSilica hefur undirritað tveggja ára samstarfssamning við Knattspyrnudeild Keflavíkur um að styðja meistaraflokk og 2. flokk kvenna. Þrátt fyrir ungan aldur geoSilica er stefna fyrirtækisins mjög skýr en þar er ofarlega á blaði stuðningur við samfélagið og að hvetja ungar stúlkur til dáða. Með samstarfinu er höfuðáhersla lögð á eflingu knattspyrnu kvenna í Keflavík. Jón Benediktsson formaður Knattspyrnudeildar er mjög ánægður með samstarfið og telur mikilvægt að efla hlut kvennadeildarinnar þannig að allir fái jafnan möguleika á að spila góðan bolta.
,,Ég held að það sé óhætt að fullyrða að geoSilica sé fyrsta fyrirtækið sem styrkir kvennaboltann í Keflavík þannig að styrkurinn sé eingöngu notaður til uppbyggingar á kvennaboltanum. Þetta er breyting til batnaðar átt og með þessu átaki sem við fórum í með geoSilica er verið að taka mikilvægt skref í áttina til jafnræði kynjanna í íþróttum”, segir Sveinn Ingi Þórarinsson, gjaldkeri kvennaráðs Keflavíkur.
Að sögn Fidu Abu Libdeh, annars stofnenda fyrirtækisins, eru það forréttindi að fá að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og þá sérstaklega uppbyggingu kvenna á Suðurnesjunum
,,Við erum afar stolt af því að vera fyrsta fyrirtækið sem styrkir sérstaklega kvennaknattspyrnuna í Keflavík og teljum það skyldu okkar fremur en valkost að leggja þeim lið” segir Fida, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. geoSilica framleiðir kísilsteinefni unnið úr jarðhitavatni á Hellisheiði en varan kom á markað í janúar 2015 og hefur slegið í gegn.
Styrkur geoSilica er ómetanlegur að sögn Sveins Þórarinsson gjaldkera kvennaráðs Keflavíkur.
,,Það er verið að ganga frá samningum við tvær stúlkur frá Bandaríkjunum, markvörð og framherja, um að spila með stelpunum í sumar. Það er meðal annars fyrir stuðning geoSilica að það er hægt að fá slíka leikmenn sem efla liðið og yngri leikmenn geta lært af. Það verður fróðlegt að fá þessar tvær til að koma í markaðsátakið með okkur og væntanlega mun slíkt vekja áhuga þeirra sem þær þekkja á Florida á vörum geoSilica en þær eru búsettar þar núna.”
Til gamans má nefna að stelpurnar hafa séð um SnapChat fyrirtækisins síðasta mánuð og hefur það gengið vonum framar. ,,Við viljum hvetja alla til þess að fylgjast með og bæta geoSilica við sem vin”, segir Fida.