Fréttir

Knattspyrna | 28. júní 2005

Gestur í 200 leiki

Gamla kempan Gestur Gylfason náði þeim merka áfanga að leika sinn 200. deildarleik fyrir Keflavík gegn Fram.  Gestur, sem er 36 ára gamall, hóf að leika með meistaraflokki árið 1987 og hefur nú leikið 200 deildarleiki, þar af eru 35 á B-deild en 165 í efstu deild.  Í þessum leikjum hefur kappinn skorað 19 mörk, 7 í efstu deild en 13 í þeirri næstefstu.  Hann er nú 5. leikjahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild frá upphafi.

Auk deildarleikjanna hefur Gestur spilað 24 bikarleiki fyrir Keflavík (2 mörk) og 7 leiki í Evrópukeppnum (2 mörk).  Gestur á einnig að baki 51 leik fyrir Grindavík í efstu deild þannig að hann hefur leikið 251 deildarleik hér á landi, þar af 216 í efstu deild.  Auk þess hefur hann leikið í Noregi og Danmörku.  Við óskum Gesti til hamingju með áfangann og vonumst til að sjá hann leika miklu fleiri leiki í Keflavíkurpeysunni.


Gestur hélt upp á 200. deildarleikinn með því að fá gult spjald (aldrei þessu vant) en
notaði greinilega tækifærið og sagði dómaranum og Guðmundi fyrirliða nokkrar gamansögur.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)