Fréttir

Knattspyrna | 27. maí 2005

Gísli Torfason 1954-2005

Í dag verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju Gísli Torfason, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur og íslenska landsliðsins.

Gísli var Keflvíkingur í húð og hár og þótti snemma efnilegur íþróttamaður.  Hann hóf að leika með meistaraflokki Keflavíkur árið 1971, aðeins 17 ára gamall, og fetaði þar með í fótspor Magnúsar bróður síns.  Það ár varð Gísli Íslandsmeistari, aftur árið 1973 og tveimur árum síðar varð hann bikarmeistari með Keflavíkurliðinu.  Gísli lék um 100 leiki fyrir Keflavík í efstu deild auk fjölda leikja í bikarkeppnum, Evrópukeppnum og öðrum mótum.  Hann lék 29 landsleiki fyrir Íslands hönd og var fyrirliði í tveimur þeirra. 

Á ferli sínum tók Gísli þátt í mörgum eftirminnilegustu leikjum Keflavíkur og íslenska landsliðsins.  Hann lék úrslitaleikinn gegn ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn árið 1971 þegar Keflavík sigraði lið ÍBV 4-0.  Tæplega 11 þúsund áhorfendur fylgdust með leiknum sem er ennþá mesti fjöldi sem hefur séð deildarleik á Íslandi.  Gísli var í vörn Íslands í ógleymanlegum 2-1 sigri á A-Þjóðverjum árið 1975 og hann lék marga eftirminnilega Evrópuleiki gegn þekktum stórliðum. 

Vegna meiðsla varð knattspyrnuferill Gísla styttri en efni stóðu til.  En þótt hann legði knattspyrnuskóna á hilluna fór keppnisskapið ekki sömu leið.  Hann stundaði brids og golf af ástríðu og var fastagestur á knattspyrnu- og körfuboltaleikjum Keflvíkinga.  Gísli vann til fjölda verðlauna í brids þar sem hann sameinaði útsjónarsemi keppnismannsins og rökhugsun stærðfræðikennarans með góðum árangri.

Gísli Torfason var mikill íþróttamaður, hann var afburða knattspyrnumaður og lék einnig handknattleik fyrir Keflavík.  Hann þótti mjög útsjónarsamur og spilaði knattspyrnu „með höfðinu“.   Gísli var fjölhæfur knattspyrnumaður og lék á ferli sínum í nánast öllum stöðum.  Það var við hæfi að í síðasta deildarleik sínum með Keflavík lék Gísli sem markvörður og var að sjálfsögðu besti maður vallarins.  Hann naut virðingar meðal samherja sinna jafnt sem mótherja, ekki aðeins fyrir knattspyrnuhæfileika sína heldur ekki síður fyrir mannkosti og framkomu þar sem kímnigáfan var aldrei langt undan.

Gísli starfaði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem stærðfræðikennari og síðar ráðgjafi og talsmaður nemenda.  Hann var að ljúka 25. starfsári sínu við skólann.  Gísli naut alla tíð virðingar og vinsælda meðal nemenda jafnt sem samstarfsmanna og verður skarð hans vandfyllt.

Knattspyrnudeild Keflavíkur sendir fjölskyldu Gísla hugheilar samúðarkveðjur um leið og við minnumst góðs félaga með þakklæti og virðingu.

Hér má sjá nokkrar svipmyndir frá knattspyrnuferli Gísla, teknar af síðum Morgunblaðsins.

 


Sumarið 1971 spilaði Gísli með Faxaflóaúrvali á alþjóðlegu
móti unglingaliða í Skotlandi og var valinn besti leikmaður mótsins.


Mynd tekin daginn fyrir úrslitaleik Keflavíkur og ÍBV á Íslandsmótinu árið 1971.
Gísli, þá 17 ára gamall, bendir á staðinn í bikaraskápnum
þar sem Íslandsmeistarabikarinn á að standa!
Daginn eftir urðu Keflvíkingar Íslandsmeistarar eftir 4-0 sigur á Eyjamönnum.


Lið Keflavíkur sem varð Íslandsmeistari 1971, á fyrsta ári Gísla með liðinu.


Keflavíkurliðið varð aftur meistari árið 1973.  Morgunblaðið óskar liðinu til
hamingju og með fylgir mynd af marki Gísla í síðasta leik mótsins gegn Breiðablik.


Grein Morgunblaðsins um leik ÍBV og Keflavíkur í 1. deild árið 1975. 
Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf.


Gísli í sínum síðasta landsleik, gegn Póllandi á Laugardalsvelli í september 1978.

 

Síðasti deildarleikur Gísla var gegn Fram í júní 1979.  Í markvarðavandræðum Keflavíkurliðsins lék Gísli í markinu í leiknum og átti stórleik eins og fram kemur í fyrirsögninni.