Fréttir

Knattspyrna | 19. október 2004

Gjafir til Knattspyrnudeildar

Á lokahófi Knattspyrnudeildar s.l. föstudagskvöld á Ránni var ekki eingöngu um að ræða heiðranir og verðlaun frá Knattspyrnudeild til leikmanna og stuðningsmanna Keflavíkur.  Knattspyrnudeild Keflavíkur barst óvæntur en ánægjulegur glaðningur vegna árangurs knattspyrnumanna- og kvenna í sumar.  Þeir félagar hjá SG-bílasölu, Þorsteinn Magnússon varaformaður Knattspyrnudeildar og Grétar Ólason, meðstjórnandi Knattspyrnudeildar, og eiginkonur þeirra,  færðu Keflavík 100.000 krónur að gjöf vegna glæsilegs árangurs Keflavíkur á knattspyrnuvellinum í sumar og ekki síður vegna þess að fyrirtæki þeirra SG-bílar og bón stækkaði umtalsvert í vor þegar bílasölu var bætt við reksturinn.  Knattspyrnudeild Keflavíkur vill þakka þeim hjónum fyrir glæsilegan stuðning og óskar þeim góðs gengis um ókomin ár.

Ragnar Örn Pétursson kom færandi hendi og afhenti Knattspyrnudeild 200.000 krónur frá Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar vegna glæsilegs árangurs í sumar þar sem Bikarmeistaratitillinn bar hæst.  Í ávarpi sínu bar Ragnar lof á framgang knattspyrnufólks Keflavíkur í sumar og óskaði því bjartrar framtíðar.  Ragnar Örn sagði að þessi upphæð væri hluti af stærri styrk sem kæmi til með þátttöku Keflvíkinga í Evrópukeppninni næsta sumar.