Fréttir

Góð byrjun
Knattspyrna | 5. maí 2014

Góð byrjun

Keflavík vann öruggan sigur á Þór þegar liðin mættust í 1. umferð Pepsi-deildarinnar en lokatölur urðu 3-1.  Leikurinn fór fram í blíðskaparveðri enda létu áhorfendur sig ekki vanta og stemmningin var góð hjá stuðningsmönnum beggja liða.  Það var Jóhann Birnir Guðmundsson sem gerði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu og það var jafnframt fyrsta mark Íslandsmótsins í ár.  Hörður Sveinsson bætti við öðru marki á 33. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Brenne og staðan í hálfleik 2-0.  Undir lok leiksins var brotið á Einari Orra innan teigs og Hörður skoraði úr vítaspyrnunni.  Skömmu síðar minnkuðu gestirnir muninn þegar Ármann Pétur Ævarsson skoraði af stuttu færi.

Næsti leikur er útileikur gegn Val á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda fimmtudaginn 8. maí kl. 19:15.

Leikskýrsla á KSÍ.is

Myndir frá leiknum

  • Þetta var 27. leikur Keflavíkur og Þors í efstu deild.  Keflavík hefur nú unnið 10 leiki en Þór sjö, tíu sinnum hefur orðið jafntefli.  Markatalan er 49-42 fyrir Keflavík.
     
  • Jóhann Birnir Guðmundsson gerði 39. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild en þau hafa komið í 147 leikjum.  Hörður Sveinsson er kominn með 44 mörk í efstu deild í 130 leikjum.  Hörður er sjötti markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild frá upphafi og Jóhann er sjöundi.  Þar fyrir ofan eru Þórarinn Kristjánsson með 48 mörk og Jón Ólafur Jónsson með 49.
     
  • Jóhann Birnir skoraði þriðja mark sitt gegn Þór í efstu deild og Hörður er einnig kominn með þrjú mörk gegn Þór.
     
  • Hörður skoraði í annað sinn úr vítaspyrnu fyrir Keflavík í efstu deild.  Fyrra vítaspyrnumark hans kom á heimavelli gegn ÍBV í júlí árið 2005, í 1. umferð deildarinnar.
     
  • Jonas Sandqvist og Sindri Snær Magnússon léku báðir sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild.  Paul McShane var í leikmannahópnum en kom ekki inn á en hann lék síðast með Keflavík í efstu deild árið 2010.  Þá var Árni Freyr Ásgeirsson í fyrsta sinn í leikmannhópi í efstu deild síðan áríð 2012 en hann missti af síðasta tímabili vegna meiðsla.
     
  • Daníel Gylfason og Einar Orri Einarsson fengu gult spjald í leiknum.  Daníel fékk sitt annað spjald í efstu deild en Einar Orri er kominn með 28 gul spjöld í 96 leikjum.
     
  • Keflavík vann fyrsta leik sinn í deildinni í fyrsta sinn í þrjú ár en liðið byrjaði síðasta sumar með tapi gegn FH og þar áður með jafntefli gegn Fylki.  Áður hafði liðið unnið fyrsta leikinn í deildinni árin 2007-2011.
     
  • Keflavík er nú að hefja sitt 50. timabil í efstu deild en liðið hefur unnið 24 sigra í opnunarleikjum sínum, gert 13 jafntefli en tapað 13 leikjum.  Stærsti sigurinn í fyrstu umferðinni var 6-1 sigur gegn FH árið 1976 en stærsta tapið var í fyrsta leik félagsins í efstu deild, 1-5 gegn ÍA árið 1958.  Steinar Jóhannsson hefur gert flest mörk fyrir Keflavík í fyrstu umferð í efstu deild eða sjö og næstur kemur sonur hans, Guðmundur Steinarsson, með sex mörk.  Keflavík hefur tvisvar unnið fyrsta leik sinn fimm ár í röð, fyrst árin 1970-1974 og aftur árin 2007-2011.  Á árunum 1969 til 1980 tapaði Keflavík ekki í fyrsta leik sínum í efstu deild eða 12 ár í röð.
     
  • Keflavík vígði nýja búninga í leiknum en liðið leikur nú í búningum frá Nike.  Í sumar leikur liðið í svörtum peysum og hvítum buxum en þannig var Keflavíkurbúningurinn þegar liðið hóf að leika á Íslandsmóti árið 1956.  Með þessu eru fyrstu Íslandsmeistarar Keflavíkur heiðraðir en í ár eru 50 ár síðan Keflavík varð fyrst Íslandsmeistari.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir og Jón Örvar Arason